Olíuframleiðsla í Bandaríkjunum er í hæstu hæðum um þessar mundir. Samkvæmt opinberum gögnum pumpuðu bandarískir olíuframleiðendur 11.475 milljónum tunna á dag upp í september. Samkvæmt frétt Financial Times er þetta nýtt met í framleiðslumagni og er 1,98 milljónum tunna meira á dag en í september 2017.

„Aukningin í framleiðslu er í raun ekki ný saga en þessi gögn sýna samt fram á hana. Þetta leggur enn þá meiri þrýsting á Sádi-Arabíu um að leiða samdrátt í framleiðslu hjá OPEC ríkjunum,“ sagði Michael Wittner, olíugreinandi hjá franska fjárfestingabankanum Société Générale í samtali við Financial Times. Bætti hann því við að ef OPEC ríkin hafi þurft á áminningu að halda hafi þau svo sannarlega fengið hana.

Aukning í olíubirgðum bandaríkjunum hefur ein og sér verið meiri en aukning í olíunotkun á heimsvísu sem Alþjóðaorkumálastofnunin gerir ráð fyrir að vaxi um 1,3 milljónir tunna á dag. Samkvæmt frétt FT vilja framleiðendur koma í veg fyrir að álíka framboð skapist eins og 2016 sem varð til þess að olíuverð fór alla leið niður í 30 dollara á tunnuna.

Verð á Brent hráolíu hefur lækkað um rúm 30% frá því það stóð í hæstu hæðum í byrjun október. Stendur verð á tunnuna nú í 59,46 dollurum.