Framvirkir samningar um olíu náðu í gær hæsta verði frá því árið 2019, en á fimmtudag ákváðu OPEC ríkin og bandamenn óvænt að skerðingum á framleiðslu skyldi fram haldið út aprílmánuð. Sádi-Arabía framlengdi sömuleiðis framleiðsluskerðingar út apríl, en þær áttu að renna út um næstu mánaðamót. MarketWatch greinir frá.

West Texas Intermediate (WTI) hráolía til afhendingar í apríl hækkaði um 3,5% í gær og stóð verðið í 66,09 dollurum á tunnu á New York Mercantile Exchange markaðnum. Nærmánaðar samningsverð (e. Front-month contract prices) höfðu ekki verið hærri síðan í apríl 2019.

Eins hækkaði Brent hráolía til afhendingar í maí um 3,9% í gær og stóð í 69,36 dollurum á tunnu við lokun markaða og hafði ekki verið hærra síðan  í maí 2019.

Í síðustu viku hækkaði WTI hráolía um 7,5% en Brent hráolía - sem nú hefur hækkað sjö vikur í röð - um 7,7%.

Kórónuveirufaraldurinn hafði afar neikvæð áhrif á eftirspurn eftir hráolíu og um leið verð hennar. Brugðist var við með því að draga verulega úr framleiðslu og með því að framlengja takmörkunum nú eru vonir bundnar við að hraðar gangi á þær birgðir sem söfnuðust upp á meðan eftirspurnin var sem minnst á liðnu ári.