Verið er að umbreyta 15 milljarða skuldum Wow air í 49% hlut í Wow air að því er RÚV hefur eftir Sigþóri Kristni Skúlasyni, forstjóra Airport Associates, sem er einn af kröfuhöfum Wow air. Hann segir að allir kröfuhafar WOW air nema Isavia hafa samþykkt formlega að gera breyta skuldum sínum í hluti í Wow.

Skúli Mogensen forstjóri Wow air, hafi átt þrjá símafundi með kröfuhöfum frá því um helgina. Fréttablaðið hefur greint frá því að Arctica Finance og Arion banki vinni að því að safna fimm milljörðum króna í hlutafé fyrir 51% hlut í Wow air. Sigþór segir að það geti bæði orðið nýjir hluthafar eða núverandi kröfuhafar.

Félagið hafi rúman tíma til stefnu. Engin ögurstund sé framundan næstu daga. „Ég er að horfa fram á jafnvel einhverjar vikur þangað til það verður komin niðurstaða og menn verða búnir að finna réttu hluthafana til að halda áfram með félagið,“ segir Sigþór.

Sigþór segir það í höndum nýrra hluthafa að taka ákvörðun um framtíð Skúla í starfi. „Í dag er hann forstjóri félagsins og það verður í raun og veru bara nýrra eigenda að ákveða hans framtíðarhlutverk,“ hefur RÚV eftir Sigþóri.