Nýverið var greint frá því að Jonathan B. Roubini, auðkýfingur frá Alaska, væri að ganga frá kaupunum á Keahótelum. Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins kom fram að bandaríska fasteignaþróunin myndi kaupa Keahótel á um sex milljarða króna. Í Í umfjöllun Túrista , vefmiðils sem sérhæfir sig í ferðaþjónustu, segir að tímasetningin á kaupunum hafi vakið athygli viðmælenda vefmiðilsins: „Um þessar mundir ríkir nefnilega nokkur óvissa á hótelmarkaðnum, m.a. vegna yfirvofandi hækkunar á virðisaukaskatti, þreföldunar á gistináttagjaldi í haust og styrkingu krónunnar,“ segir í fréttinni.

Um helgina sagði Roubini í viðtali við blaðið Alaska Dispatch News að fréttaflutningurinn af hugsanlegum kaupum hans á meirihluta í Keahótelum væri ótímabær, þar sem að kaupin væru ekki frágengin. Í erlendu greininni segir Roubini jafnframt að hlutur hans í hugsanlegum kaupum yrði að öllum líkindum minni en kom upprunalega fram eða um fjórðungur og að fjárfestingin næmi 6,5 milljónum dollara eða 680 milljónum íslenskra króna.

Óvissa með reksturinn í gamla sjónvarpshúsið

Fréttablaðið greindi frá því nýverið að þekkt hótelkeðja myndi opna sitt fyrsta hótel hér á landi í gamla sjónvarpshúsinu að Laugavegi 176. Vefmiðillinn Túristi tekur fram í frétt sinni að ekki komi fram hvort að erlenda hótelkeðjan ætli sér að reka hótelið eða hvort um sé að ræða sérleyfissamning.

Bent er á í frétt Túrista að slíkir sérleyfissamningar eru venjan á íslenska markaðnum, og að Hilton hótelin séu til að mynda í eigu Icelandair Hotels og að tvö af þremur Carlson Rezidor hótelunum séu í eigu íslenskra aðila. Í frétt Túrista er bætt við að Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, geti ekki tjáð sig um hvers konar fyrirkomulag verði á rekstri hótelsins í gamla sjónvarpshúsinu.