Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að umfjöllunin um Samherja hafi komið henni á óvart og þá um hvað málið snérist nákvæmlega.

„Mér var mjög brugðið yfir því sem þarna birtist og að sjá gögnin sem lögð voru til grundvallar umfjölluninni,“ segir Katrín. „Ef málavextir eru með þeim hætti, sem þarna var lýst, þá er það Samherja til skammar. Það sem þarna kemur fram er líka áhyggjuefni fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag því þetta rýrir okkar trúverðugleika á alþjóðavettvangi.“

Katrín leggur áherslu á að vandað verði til verka við rannsókn málsins.

„Skattrannsóknarstjóri hefur fengið einhver gögn og héraðssaksóknari er kominn með málið til umfjöllunar og málið þar með komið í réttan farveg réttarkerfisins. Það þarf að rannsaka þetta til hlítar og ég legg mikla áherslu á að það verði vönduð rannsókn þannig að öll kurl komi til grafar. Eins og málavextirnir líta út þá er þetta dapurlegt og sérstaklega í ljósi þess að Íslendingar höfðu um árabil staðið fyrir verkefni á sviði þróunarsamvinnu.“

Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að málið hafi valdið nokkrum titringi innan ríkisstjórnarinnar. Spurð hvort ríkisstjórnin hafi rætt málið svarar Katrín: „Við munum auðvitað fara yfir það á okkar reglubundna fundi. Ég ítreka það að þetta er mál sem á að fara rétta leið. Við erum með skýran lagaramma um það sem lýtur að mútugreiðslum, telji menn að slíkt hafi átt sér stað. Við gerum auðvitað þær kröfur til íslenskra fyrirtækja að þau fylgi lögum, þar sem þau starfa.

Ef ég horfi á gögnin, sem birt voru þá sýnist mér alveg ljóst að þarna var ekki eingöngu um uppljóstrarann að ræða eins mér fannst koma fram í yfirlýsingu Samherja heldur tengist fleiri innan fyrirtækisins málinu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér.