Viðskiptabankarnir þrír hafa allir fært lán tengd ferðaþjónustunni — sem og lán til annarra fyrirtækja sem hafa orðið fyrir miklum áhrifum af heimsfaraldrinum — upp um áhættuflokk í lánabók sinni. Það er gert vegna aukinnar hættu á útlánatapi. Bankarnir birtu allir nýverið árshlutauppgjör og var samanlögð afkoma þeirra á fyrri helmingi árs neikvæð í fyrsta sinn frá endurreisn þeirra.

Lánasöfn bankanna þriggja til fyrirtækja telja alls tæplega 1.700 milljarða króna en þar af teljast nú tæplega 500 milljarðar sem áhættusamari lán. Nú telja bankarnir þrír að um 24-32% af fyrirtækjalánum teljist áhættusamari lán en hlutfallið var almennt nær 10% fyrir ári. Mestu munar um að lán til ferðaþjónustunnar teljast nú öll sem áhættusamari lán en bankarnir hafa lánað ferðaþjónustufyrirtækjum um 250 milljarða króna. Rétt er að benda á að hluti lánanna til ferðaþjónustunnar var þegar flokkaður sem áhættusöm lán áður en faraldurinn skall á.

Bankarnir sem og önnur fjármálafyrirtæki buðu í vor 6 mánaða greiðsluhlé á lánum vegna heimsfaraldursins. Í uppgjöri Íslandsbanka kemur fram að lán til fyrirtækja upp á um 150 milljarða króna séu nú í greiðsluhléi. En um 80% af fyrirtækjum í ferðaþjónustunni og um helmingur fasteignafélaga sem bankinn hefur lánað hafi fengið greiðsluhlé á lánum.

Jákvæður viðsnúningur í miðjum faraldri

Þrátt fyrir met tap hjá bönkunum þremur varð jákvæður viðsnúningur á rekstri Arion á öðrum fjórðungi ársins. Hagnaður bankans rúmlega tvöfaldaðist á milli ára og nam 4,9 milljörðum króna samanborið við tvo milljarða á öðrum fjórðungi 2019.

Félagið hefur ekki hagnast jafn mikið á einum fjórðungi síðan á öðrum ársfjórðungi 2017. Mikil stefnubreyting hefur verið á rekstri Arion en Benedikt Gíslason tók við sem bankastjóri í sumar á síðasta ári. Síðan þá hafa orðið miklar hagræðingar meðal annars í formi uppsagna en 100 starfsmönnum var sagt upp hjá bankanum í haust fyrir tæpu ári.

Bankarnir þrír hafa greitt 2,3 milljarða króna í bankaskatt það sem af er ári samanborið við 5,7 milljarða á sama tíma árið 2019 og því sparað sér um 3,4 milljarða. Síðasta vor ákváðu stjórnvöld að hraða lækkun bankaskattsins sökum áhrifa af kórónuveirufaraldrinum og var hann lækkaður úr 0,376% af heildarskuldum í 0,145%. Áður stóð til að lækkunin myndi eiga sér stað 2021 til 2024.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .