Útlit er fyrir fremur hóflega verðbólgu hérlendis næstu mánuðina að því gefnu að gengi krónu gefi ekki verulega eftir. Greining Íslandsbanka bendir þó á að gengisþróun krónunnar hefur hins vegar verið töluvert önnur en sérfræðingar gerðu ráð fyrir og er gengisforsenda þeirra nú varfrærnari hvað varðar frekari styrkingu krónu á spátímanum. Hefur það nokkur áhrif til meiri verðbólgu á næstu fjórðungum í spá þeirra. Hins vegar eiga frekari áhrif af aukinni samkeppni einnig eftir að koma fram að mati okkar og halda aftur af verðbólgu á næstunni. Hægt er að lesa greiningu bankans hér.

Greiningaraðilar telja að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram undir næstu áramót, en mælist 2,6% í desember næstkomandi. Hins vegar verður verðbólgutakturinn heldur hraðari í spá Greiningar Íslandsbanka því sem líður á næsta vetur. Hún áætlar að verðbólga verði að jafnaði 3% á næsta ári, og svo spáir Greining Íslandsbanka 2,9% verðbólgu að meðaltali árið 2019.

Svipuð næsta kastið

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn verði þó svipaður næstu mánuðina og hann hefur verið upp á síðkastið. Íslandsbanki spáir 0,5% hækkun á vísitölu neysluverðs í ágúst, 0,4% hækkun í september og 0,2% hækkun í október. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,1% í októbermánuði. Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,21% í mánuði hverjum að jafnaði.

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs verði óbreytt í júli frá fyrri mánuði. Miðað við það eykst verðbólga úr 1,5% í 1,9% í júli. Hækkandi íbúðaverð vegur þyngst til hækkunar VNV í  júlí líkt og verið hefur. Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs, vegur til 0,26% hækkunar VNV. Þó virðist heldur vera að hægja á hækkun íbúðaverðs m.v. könnun okkar. Í heild vegur húsnæðisliður VNV til 0,3% hækkunar í júlí.