Hæstiréttur ómerkti í dag tvo dóma í málum félaga Kristjáns Loftssonar gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni. Málunum var vísað aftur heim í hérað þar sem meðferð þeirra var ekki í samræmi við lög um meðferð einkamála.

Um var að ræða mál sem félögin Vogun hf. og Fiskveiðihlutafélagið Venus hf. höfðuðu gegn Björgólfi persónulega til greiðslu skaðabóta. Krafan hljóðaði samtals upp á rúmlega 610 milljónir króna.

Í desember 2007 keyptu félögin hluti í Landsbanka Íslands fyrir áðurnefnda upphæð. Töldu félögin tvö að Björgólfur hefði valdið þeim tjóni með því að leyna því að á þeim tíma er viðskiptin voru gerð hefði félag í hans eigu farið með yfirráð í bankanum. Félögin hefðu því ekki átt bréf í bankanum á þeim tíma er þau urðu verðlaus, við hrun bankans í október 2008, ef hins ólögmæta háttsemi Björgólfs hefði ekki átt sér stað. Hin ólögmæta háttsemi, að mati félaganna, fólst í því að á því tímamarki er bréfin voru keypt hefði Samson eignarhaldsfélag ehf. farið með meirihluta atkvæða á hlutahafafundum bankans. Sú staða hefði með réttu átt að leiða til þess að félagið gerði yfirtökutilboð í alla hluti í bankanum en það hafi aldrei gert.

Við meðferð málsins í héraði var sakarefni málsins skipt á þann veg að aðeins var fjallað um það hvort krafa félaganna á hendur Björgólfi væri fyrnd eður ei. Var það niðurstaða réttarins, og síðar Landsréttar, að svo væri. Hæstiréttur féllst hins vegar ekki á að þessi meðferð málsins væri í samræmi við lög.

„Svo unnt sé að skipta sök með því móti og taka aðeins afstöðu til fyrningar án þess að leysa úr málinu að öðru leyti verður að liggja fyrir hvenær og á hvaða grundvelli krafa er talin hafa stofnast. Niðurstaða í þeim efnum ræður einnig lagaskilum milli eldri fyrningarlaga nr. 14/1905 og yngri laga nr. 150/2007, en síðargreindu lögin gilda einvörðungu um kröfur sem stofnast eftir gildistöku þeirra 1. janúar 2008,“ segir í dómi réttarins.

Félögin byggðu á því að krafa þeirra hefði stofnast í desember 2007 við kaupin á hlutabréfunum. Því hafi eldri fyrningarlögin gilt og krafan ófyrnd þegar málið var höfðað. Björgólfur taldi á móti að nýrri lögin ættu við, krafan hefði fyrnst á fjórum árum og væri því niður fallin.

Hæstiréttur benti á að það væri meginregla að krafa um skaðabætur utan samninga stofnaðist þegar hin bótaskylda háttsemi á sér stað. Það færi þó eftir atvikum hverju sinni hvort afleiðingar hinna ólögmætu háttsemi kæmu fram samtímis eða síðar. „Þá hefur verið lagt til grundvallar hvað svokölluð athafnaleysisbrot varðar að miða beri stofndag kröfu við það tímamark þegar unnt var í síðasta lagi að afstýra tjóni. Samkvæmt þessu kann áfrýjandi að lögum að eiga kröfu um skaðabætur utan samninga þess efnis sem hann heldur fram og sem þá stofnaðist til innan þeirrar tímamarka sem hann byggir aðallega á,“ segir í dóminum.

„Eins og mál þetta liggur fyrir er ekki unnt að taka afstöðu til fyrningar ætlaðrar skaðabótakröfu áfrýjanda nema fyrst hafi verið leyst úr því hvort hún hafi orðið til, á hvaða grunni það hafi gerst og hvenær. Að öðrum kosti fæli niðurstaða málsins í sér getsakir, eftir atvikum valkvæðar, um hvort kröfuréttindi, sem ekki hefur verið staðreynt hvort orðið hafi til, hafi fallið niður fyrir fyrningu,“ segir dómurinn. Því hafi brostið skilyrði fyrir því að skipta sakarefni málsins, fyrri dómar því ómerktir og málinu vísað heim í hérað.