Heldur rautt var yfir kauphöllinni í dag en alls lækkuðu hlutabréf fjórtán félaga en bréf þriggja félaga hækkuðu. Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði um 0,9% og stendur í 2.046 stigum eftir lokun markaða og hefur hún ekki verið lægri síðan um miðjan júlímánuð. Vísitalan braut í fyrsta sinn 2.200 stiga múrinn fyrir um mánuði síðan.

Mest hækkuðu hlutabréf Icelandair um 3,45% í alls 45 milljóna króna viðskiptum. Bréf félagsins standa nú í 0,9 krónum hvert. Næst mest hækkun var á bréfum Origo um 1,69% sem standa nú í 30 krónum. Sömuleiðis var mest velta með bréf Origo fyrir 220 milljónir í sex viðskiptum. Bréf Festi hækkuðu um 0,34% og standa þau í 145,5 krónum hvert.

Mest lækkuðu hlutabréf Haga um 1,93% í næst mestri velta dagsins sem nam 214 milljónum króna. Næst mest lækkuðu bréf Regins um 1,61% og standa þau nú í 15,25 krónum. Félagið hefur ný lokið hlutafjárútboði þar sem útboðsgengi bréfanna var fimmtán krónur.

Heildarvelta nam 1,6 milljarði króna í 148 viðskiptum. Í nýliðnum septembermánuði námu heildarviðskipti að meðaltali tæplega 1,8 milljarði króna á hverjum degi og lækkaði úrvalsvísitalan um 0,86%.