Alþjóðlegir aðilar í framleiðslu kísilmálmi hafa haft samband við Arion banka um mögulega aðkomu að rekstri verksmiðju United Silicon. Hvort tveggja kröfuhafar sem og alþjóðlegir aðilar í kísiliðnaði hafa sett sig í samband við Arion banka og lýst yfir áhuga að koma að starfsemi kísilverksmiðju United Silicon að því er Morgunblaðið segir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur farið ítarlega í saumana á hefur ýmislegt gengið á við byggingu og gangsetningu á framleiðsluferli verksmiðjunnar sem liggur nú niðri og kostar Arion banka 200 milljónir á mánuði , auk dómsmála á báða bóga sem hafa verið höfðuð sem og önnur hugsanlega í undirbúningi .

Gott heimsmarkaðsverð á kísilmálmi

Haraldur Guðni Eiðsson forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka segir ekki tímabært að upplýsa hverjir hinir alþjóðlegu aðilar séu. Hins vegar segir hann það oft gleymast í umræðu um málefni verksmiðjunnar að eftirspurn eftir kísilmálmi í heiminum fari vaxandi og gott heimsmarkaðsverð sé á málminum.

Viðskiptablaðið hefur í umfjöllun sinni um uppbyggingu kísilverksmiðjanna fjögurra sem hafa verið í áætlun hér á landi, meðal annars fjallað um stöðu Thorsil sem einnig hyggst reisa kísilmálmverksmiðju í Helguvík, þrátt fyrir að hafa misst fjármögnun íslenskra lífeyrissjóða.

Einnig hefur Viðskiptablaðið ítarlega fjallað um áform Silicor Material, sem íslenskir lífeyrissjóðir hafa þegar fjárfest um milljarði í, um uppbyggingu Kísilvers við Grundartanga, en um tíma virtist sem hætt hefði verið við hana, þó síðar hefði verið þvertekið fyrir það .