Kveðjuveisla fyrir Svanhildi Konráðsdóttur, sem nú er að láta af störfum sem sviðstjóri hjá Reykjavíkurborg til að taka við sem forstjóri Hörpu.Veislan kostaði 400 þúsund krónur og voru helstu fyrirmenni í menningargeira landsins meðal þeirra 70 manns sem voru á gestalistanum. Þetta var þó ekki fyrsta veislan sem haldin var til að kveðja Svanhildi.

Hefð fyrir því að starfsfólk fái kveðjuhóf

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun sögðu ýmsir forráðamenn í borginni langa hefð vera á bak við það að sviðstjórar og forráðamenn væru kvaddir með veislum og það væri eðlilegt að sýna fólki þannig virðingu þó sumum kæmi kostnaðurinn á óvart.

Viðskiptablaðið hefur þó heimildir fyrir því að þetta sé önnur veislan sem haldin er til að kveðja Svanhildi, en sú fyrri var haldin á Kjarvalsstöðum 27. apríl fyrir starfsfólk, og þangað mætti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og hélt tölu.

Borgarstjórinn hélt tölu í veislu á Kjarvalsstöðum

Spurð út í málið segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins þennan mikla kostnað hljóta vera tekinn beint úr vösum skattgreiðenda.

„Ég hef ekki hugmynd um hver greiddi fyrir veisluna sem þú nefnir á Kjarvalsstöðum, né hver kostnaðurinn við hana er, en það hlýtur að vera hægt að þakka fólki fyrir vel unnin störf og kveðja það með tilhlýðilegri virðingu, án þess að það þurfi að kosta svona mikið,“ segir Marta þegar hún var innt eftir kostnaðinum við veislurnar.

Spyr hví ekki löngu búið að skera niður

Spurð út í orð Lífar Magneudóttur, forseta borgarstjórnar, og oddvita Vinstri Grænna, um að ef það væri hart í árinni hjá borginni myndu veislur eins og þessar vera þær fyrstu sem yrðu látnar fjúka, sagði Marta það vera furðulegt að ekki væri þá löngu búið að því miðað við fjárhagstöðu borgarinnar.

„Skuldir eru að aukast milli ára, þrátt fyrir góðæristíma, á meðan þjónustan er að minnka og skattgreiðendur þurfa að greiða útsvar í hæstu hæðum,“segir Marta. „Á meðan við getum ekki sinnt grunnþjónustu í borginni, þá er mjög sérstakt að við getum verið að eyða peningum í að hafa svona fínar og dýrar veislur til að kveðja starfsmenn.“

Höfnuðu að greiða fyrir unglingavinnu

Marta segir þjónustu Reykjavíkurborgar vera að dragast aftur úr nágrannasveitarfélögunum, og nefnir sem dæmi að meirihluti Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Bjartrar framtíðar hafi hafnað því að gefa 8. bekkingum grunnskóla kost á vinnu í sumar hjá Vinnuskóla Reykjavíkur.

„Ástand borgarlandsins hefur verið þannig undanfarin ár, að ekki veitir af liðsauka í vinnuskólann, til að þrífa og fegra borgina.“