Þann 18. maí sl. var opnað nýtt frumkvöðlasetur á Akureyri en um er að ræða samstarf milli Akureyrarbæjar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Tilgangurinn með rekstri frumkvöðlasetursins er að styðja við nýsköpun í atvinnulífi bæjarins en að sögn Framkvæmdastjóra Nýsköpunarmiðstöðvar, Sigríði Ingvarsdóttur, eru góðar forsendur fyrir nýsköpun af fjölbreyttum toga á Norðurlandi.

„Akureyrarbær hafði frumvæði að verkefninu og leitaði samstarfs við Nýsköpunarmiðstöð. Meginástæða þess er sú að menn vildu hvetja frumkvöðla á svæðinu til dáða og styðja við nýsköpun með því að bjóða upp á aðstöðu og aðgengi að faglegri þekkingu á þessu sviði,“ segir Sigríður. Bærinn leggur til húsnæðið að Glerárgötu 34 undir starfsemina en Nýsköpunarmiðstöð hefur umsjón með daglegum rekstri frumkvöðlasetursins, metur umsóknir og verkefni og býr frumkvöðlum góðar aðstæður.

Eykur samkeppnishæfni svæðisins

Að sögn Sigríðar er frumkvöðlasetur svo miklu meira en bara hús. „Til þess að frumkvöðlasetur virki eins og til er ætlast þarf að koma til fagleg aðstoð, virk upplýsingagjöf, öflugt tengslanet og síðast en ekki síst, fjölbreyttir og flottir frumkvöðlar sem njóta góðs af sameiginlegri vinnuaðstöðu og því að geta deilt reynslu og þekkingu sín á milli.“

Hún segir að tilgangurinn með rekstri frumkvöðlasetursins sé að styðja við nýsköpun í atvinnulífi bæjarins. Er því ætlað að auðvelda frumkvöðlum að raungera viðskiptahugmyndir sínar og hraða ferlinu frá því að hugmynd verður til og þar til rekstur hefst.

„Hagur bæjarfélagsins felst í því að unga út vænlegum fyrirtækjum sem auðvelda menntuðu fólki að starfa í samræmi við menntun í heimahögunum. Þar með eykst samkeppnishæfni svæðisins. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur góða reynslu af samstarfi við sveitarfélög um rekstur frumkvöðlasetur samanber Hafnarfjörður, Garðabær og Reykjavíkurborg. Nú þegar hafa nokkrir frumkvöðlar verið í sambandi við okkur um setrið og aðstöðuna þar og við gerum ráð fyrir að frumkvöðlar komi jafnt og þétt inn á setrið á næstu mánuðum. “

Góðar forsendur fyrir fjölbreyttri nýsköpun

Sigríður segir að á Norðurlandi séu góðar forsendur fyrir nýsköpun af fjölbreyttum toga. „Háskólinn á Akureyri hefur meðal annars hafið kennslu í tölvunarnámi sem býður upp á fjölbreytta möguleika í tengslum við það atvinnulíf sem fyrir er á svæðinu. Þannig hefur t.d. verið töluverð nýsköpun í heilbrigðistengdri hugbúnaðargerð. Á svæðinu eru einnig frumkvöðlar í skapandi greinum sem hafa náð ágætum árangri. Öflug fyrirtæki í nýsköpun í sjávarútvegi bjóða auk þess upp á fjölbreytt tækifæri fyrir frumkvöðla til frekari þróunar sem byggir á starfsemi þessara fyrirtækja.“

Nýsköpun er ekki tískufyrirbæri

Sigríður segir mikilvægt að fólk átti sig á því að nýsköpun er ekki tískufyrirbæri. „Þetta er ekki átak til að flagga á tyllidögum – hún verður að vera viðvarandi. Það er langhlaup að reka gott fyrirtæki og það sama gildir um stuðningsumhverfi við frumkvöðla og nýsköpun. Þar þarf alltaf að vera til staðar fagleg þekking og reynsla, tæki, tól og aðstaða og tengslanet við alþjóðlegt umhverfi, samanber öflugt norrænt tengslanet okkar ásamt setrunum í New York og Silicon Valley. Þessu þurfa frumkvöðlar að geta gengið að sem vísu þegar sprotinn er viðkvæmur og þarf stuðning.“