Heilsuvernd, K!M Endurhæfing og Heilaheilsa hafa í samstarfi við NeckCare opnað hálsgreiningar- og höfuðáverkamiðstöð í Urðarhvarfi í Kópavogi. Miðstöðin sérhæfir sig í  greiningu og meðferð á hálsverkum og höfuðáverkum, og notar NeckSmart tækni frá íslenska tæknifyrirtækinu NeckCare. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fram kemur að hálsverkir séu meðal algengustu stoðkerfisvandamála sem almenningur glími við í dag og sé jafnframt ein helsta ástæða þess að fólk sæki sér þjónustu til sjúkraþjálfara.

Jón Magnús Kristjánsson, fyrrum yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans og nú framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsuvernd:

„Sem fyrrum yfirlæknir á bráðamóttökunni þekki ég vel vandamálin sem geta myndast eftir að fólk verður fyrir meiðslum á hálsi. Oft getur líka reynst erfitt að greina vandamálið sökum takmarkana á sneið- og röntgenmyndum. Ég hef séð með eigin augum hvernig greiningin sem verið er að bjóða upp á getur hjálpað sjúklingum okkar. Með opnun háls-  og höfuðáverkamiðstöðvarinnar mun teymi af þverfaglegum aðilum getað aðstoðað ört stækkandi hóp fólks sem þjáist af hálsverkjum."

Kim De Roy, framkvæmdastjóri K!M Endurhæfingar :

„Nýja miðstöðin kemur til með að breyta því hvernig greining og meðferð á hálsverkjum fer fram. Grunnatriðið er að greina með hlutlægum hætti orsök vandamálsins og leiðbeina skjólstæðingum okkar á grundvelli greiningarinnar um rétta endurhæfingaráætlun. Sérfræðingahópur okkar er fjölþættur en í honum eru m.a næringarfræðingar, sjúkraþjálfarar og sálfræðingar. Það hefur sýnt sig að það er fólki mikill léttir að fá loks áreiðanlegar upplýsingar sem byggja á vísindalegri greiningu á vandamálinu."

Þorsteinn Geirsson, framkvæmdastjóri NeckCare:

„NeckCare þróar hátæknibúnað sem ætlað er að meta stoðkerfisvanda í hálsi, sem nýtist jafnt til greiningar og endurhæfingar. Einkaleyfisvernduð tækni félagsins gerir mögulegt að veita fagaðilum á heilbrigðissviði aðstoð við áreiðanlegt mat á hálsskaða og framkvæmd endurhæfingar þeirra sjúklinga sem um ræðir, s.s. þeirra sem hlotið hafa endurtekna og langvarandi hálsáverka."

Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir, sálfræðingur og klínískur stjórnandi Heilaheilsu:

„Markmið okkar hjá Heilaheilsu er að bæta þjónustu við fólk sem hefur fengið væga heilaáverka, s.s. heilahristing, sem og við fjölskyldur þeirra. Heilaheilsa veitir faglega og gagnreynda meðferð þar sem áhersla er lögð á að nýta nýjustu þekkingu til að efla heilbrigði heilans og stuðla að bata eftir höfuðáverka. Þverfaglegt samstarf á miðstöðinni mun gefa okkur tækifæri til að meta og meðhöndla á heildrænan afleiðingar heilahristings."

Fram kemur að hjá Heilaheilsu starfi fagfólk sem hafi sérhæft sig í greiningu og meðferð vægra höfuðáverka, svo sem heilahristings. Boðið sé upp á sérhæft mat, ráðgjöf, fræðslu, sálfræðimeðferð og áreynsluþjálfun.