Í morgun átti að fara fram opinn fundur fjárlaganefndar með fulltrúum Bankasýslu ríkisins um sölu ríkisins á hlutum í Íslandsbanka. Fundinum var hins vegar frestað í gærkvöldi fram á miðvikudaginn næsta að beiðni Bankasýslunnar.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, sagðist í morgunútvarpi Rásar 2 vera mjög ósátt við að fresta hafi þurft fundinum. Bankasýslan hafi fengið drjúgan tíma til að svara spurningum nefndarinnar og að hennar mati hafi flestar þeirra átt að liggja fyrir við söluna.

Fjárlaganefnd hafði óskað eftir minnisblaði sem inniheldur á fjórða tug spurninga, að því er kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Að sögn Bjarkeyjar fékk Bankasýslan afhentar spurningarnar í tveimur hollum, hið fyrra þann 6. apríl og hið seinna þann 13. apríl.

Fjárlaganefnd hefur meðal annars óskað eftir rökstuðningi frá Bankasýslunni um val á söluaðilum við útboð á hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka og þóknun þeirra. Auk þess var spurt um kostnaðaráætlun stofnunarinnar við útboðið í síðasta mánuði, með hvaða hætti fjárfestar voru valdir og hvort jafnræðis hafi verið gætt.

„Ég er mjög hissa á framgöngu bankasýslunnar, þetta er óásættanlegt með öllu,“ hafði Morgunblaðið eftir Bryndísi Haraldsdóttur, nefndarmanni í fjárlaganefnd og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vegna frestunarinnar.