Optima ehf. er hætt starfsemi eftir 68 ár í rekstri samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Félagið var stofnað árið 1953 og var fyrst fyrirtækja á Íslandi til flytja inn og selja ljósritunarvélar. Það hefur undanfarna áratugi selt margskonar skrifstofu- og prentvörur.

Félagið hefur verið rekið á sömu kennitölu frá upphafi. Á vef félagsins er bent á að það hafi verið samstarf við Ricoh frá árinu 1965. Fyrirtækið hefur til þessa verið með starfsemi við Suðurlandsbraut í Reykjavík, Víkurhvarfi í Kópavogi og við Glerárgötu á Akureyri.

Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2020 segir að Covid-19 hafi haft veruleg áhrif reksturinn þar sem það hafa tekjur af notkun á tækjum. Fjöldatakmarkanir hafi í för með sér að verulega hafi dregið úr notkun á tækjum sem Optima leigi fyrirtækjum. Félagið hafi brugðist við með því að draga úr launakostnaði og nýtti sér hlutabótaúrræði stjórnvalda.

Gerður var fyrirvari í ársreikningnum um að skammtímaskuldir væru 146 milljónum króna hærri en veltufjármuni og að félagið þyrfti að ljúka endurfjármögnun á lánum félagsins á þessu ári. Ef það tækist ekki léki vafi á rekstrarhæfi félagsins. Þá var eigið fé Optima neikvætt um 226 milljónir um síðustu áramót.

11,5 ársverk voru hjá félaginu á síðasta ári og námu rekstrartekjurnar tæplega 400 milljónum króna.