Bandaríski bankinn Wells Fargo var í hugum Bandaríkjamanna traustur banki, með langa sögu, sem hafði sloppið við flest allar slæmar ásakanir. Á seinustu tveimur mánuðum hefur orðsporið aftur á móti hrunið, en neytendum hefur aldrei líkað jafn illa við bankann. Þetta kemur fram á vef CNN Money.

Fyrir rúmlega tveimur mánuðum kom upp hneyksli sem snéri að söluhegðun bankans. En starfsfólk Wells Fargo var skipað til að búa til rúmlega tvær milljónir reikninga án leyfis viðskiptavina.

Í ofanálag komu upp hneyksli sem vörðuðu áreiti og ógnanir á vinnustað. Fyrrverandi starfsmenn hafa til að mynda sagt frá klósett banni og fyrirskipunum, sem gengu gegn þeirra vilja í starfi.

Þó svo að bankastjórinn, John Stumpf, hefur stigið til hliðar, hefur viðhorf neytenda ekki batnað. Á aðeins tveimur mánuðum hefur ímynd bankans nefnilega veikst umtalsvert.

Fyrir hneykslið voru um 15% Bandaríkjamanna með neikvætt viðhorf gagnvart bankanum, á sama tíma og 22% aðspurðra sögðust aldrei ætla sér að stunda viðskipti við Wells Fargo. Í dag segjast um 52% aðspurðra hafa neikvætt viðhorf gagnvart bankanum, en um 54% segjast aldrei ætla að stunda viðskipti við bankann.