Upplýsingatæknifyrirtækið Origo hækkaði mest allra félaga á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 6,35% og endaði daginn í 67 krónum á hlut. Gengi flestra félaga á aðalmarkaði hækkaði í Kauphöllinni í dag, í 3,7 milljarða króna heildarveltu. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,48% og stendur nú í 3.356,49 stigum.

Mest velta var með bréf Marel, en viðskipti með bréfin námu 720 milljónum króna og hækkaði gengi félagsins um 2,37% í viðskiptum dagsins. Næst mest velta var með bréf Eimskips, en viðskipti með bréfin námu 630 milljónum króna og hækkaði gengi félagsins um eitt prósent í viðskiptum dagsins.

Gengi bréfa VÍS hækkaði um tvö prósent í 40 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa hækkaði hjá öllum bönkunum á markaði, Íslandsbanka, Arion banka og Kviku banka. Sama má segja um gengi bréfa fasteignafélaganna Eikar, Reita og Regins.

Icelandair var eina félagið á aðalmarkaði sem lækkaði í viðskiptum dagsins, um 0,29% í 360 milljóna króna viðskiptum.

Á First North markaðnum hækkaði gengi bréfa Hampiðjunnar um 4,55% í 15 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa Play hækkaði um 0,43% í rúmlega 120 milljóna króna viðskiptum og fasteignaþróunarfélagið Kaldalón hækkaði um 3,21% í tæpum 100 milljóna viðskiptum.