Ýmislegt bendir til þess að það sé komið að ákveðnum tímamótum á orkumarkaði á Íslandi þar sem lögð verði áhersla á nýtingu núverandi auðlinda frekar en mikla nýja uppbyggingu. Bendir margt til þess að nýting íslenskra orkuauðlinda geti haft í för með sér myndun auðlindaarðs sem gæti orðið töluverður í þjóðhagslegu samhengi. Því vakna spurningar um hvernig sé best að verja slíkum auðlindaarði. Ekki er sjálfgefið að þjóðhagslegum hagsmunum sé best varið með sem lægstu orkuverði eða aukinnar samkeppni hvað varðar sölu orku til erlendra aðila. Um leið og tryggja þarf hagkvæmni í framleiðslu og dreifingu á raforku sem og hagkvæmustu nýtingu orkuauðlindanna þarf einnig að taka tillit til alþjóðlegrar samkeppnisstöðu íslensks raforkuiðnaðar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslunni Orkuauðlindir Íslendinga og hagsæld til framtíðar, sem unnin var fyrir Landsvirkjun af Reykjavik Economics og Intellecon. Skýrslan var kynnt á morgunfundi Landsvirkjunar sem fór fram fyrr í vikunni. Landsvirkjun fól fyrrnefndum ráðgjafarfyrirtækjum að skoða íslenskan raforkumarkað, reifa hvort og hvernig væri hægt að betrumbæta umgjörðina og koma fram með hugmyndir um framtíðarfyrirkomulag varðandi uppbyggingu og skiptingu arðs af orkuauðlindum Íslands.

Ótrúleg framsýni

„Þegar við byrjuðum að vinna skýrsluna þá skoðuðum við meðal annars stöðu Landsvirkjunar á alþjóðlegum markaði og hvernig samkeppnisumhverfið er. Landsvirkjun er í samkeppni við mjög stór alþjóðleg fyrirtæki um viðskiptavini á hverjum degi og er því nokkuð lítill fiskur í stórri tjörn, þó svo að fyrirtækið sé stór fiskur á markaðnum hér á landi. Landsvirkjun hefur frá stofnun notið þess að hafa átt trausta viðskiptavini, sem hefur gert það að verkum að fyrirtækið er í ágætis stöðu í dag. Það er áhugavert að skoða uppbyggingartímabil fyrirtækisins og ótrúlega framsýni þeirra frumkvöðla sem komu að stofnun þess. Það sem þeir lögðu upp með í byrjun hefur að meginstefi staðist. Þessar framkvæmdir voru ekki óumdeildar en nú hafa þær sannað gildi sitt," segir Magnús Árni Skúlason, annar af höfundum skýrslunnar.

Magnús bendir á að Jóhannes Nordal, forseti stóriðjunefndar, sem var sett á í kringum þetta verkefni, hafi sagt árið 1965 - árið sem Landsvirkjun var stofnuð - að ef Íslendingar hefðu virkjað Þjórsá á þriðja áratug aldarinnar, ættu þeir fullafskrifað orkuver, sem skilaði hundruðum milljóna í hreinum tekjum á ári hverju, og síðast en ekki síst væri orðin til stétt sérfræðinga og vísindamanna, sem gerði þjóðinni kleift að standa jafnfætis öðrum í efnaiðnaði.

„Síðustu ár hefur Landsvirkjun verið dugleg við að greiða niður skuldir sínar og má því segja að orð Jóhannesar séu loks að verða að veruleika. Uppbygging nýrra og minni virkjanna hefur svo verið greidd að meginþorra úr sjóðstreymi Landsvirkjunar og lítil lán tekin. Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi og nú þegar fyrirtækið er orðið mun minna skuldsett vaknar sú spurning hvernig sé best að nýta auðlindirnar til framtíðar til þess að það komi eigandanum, sem sagt ríkinu, sem best. Það er hins vegar ekkert sjálfsagt mál. Má þar sem dæmi nefna að auðlindaríkar þjóðir eins og Venesúela hafa ekki komið ár sinni vel fyrir borð."

Auðlindasjóður möguleiki

Í skýrslunni eru nefndar þrjár leiðir um það hvernig hægt væri að nýta þann hagnað sem safnast upp hjá Landsvirkjun. Í fyrsta lagi gæti Landsvirkjun aukið arðgreiðslur til eiganda. Ríkissjóður myndi hagnast vel á því og gæti ráðstafað tekjunum að vild, t.d. dregið úr skuldum, minnkað skattbyrði eða aukið útgjöld. Í öðru lagi gæti Landsvirkjun lækkað verð til notenda, en ekki sé ljóst hvernig það hámarkar velferð. Í þriðja lagi mætti svo safna arðgreiðslum í sérstakan sjóð, svokallaðan orkuauðlindasjóð. Þessi sjóður yrði í eigu opinberra aðila.

„Okkar niðurstaða var sú að það borgaði sig frekar að halda óbreyttri þeirri stefnu að bjóða orkuna á samkeppnishæfu verði. Landsvirkjun gæti aldrei farið að bjóða upp á mikið hærra verð en erlendir samkeppnisaðilar, því þá kæmu engir viðskiptavinir hingað. Ef verðið yrði lækkað og orkan niðurgreidd að hluta, gæti myndast sóun. Með þessu væri ekki verið að nýta auðlindina á sem bestan hátt og hámarka arðinn," segir Magnús.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .