Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir það mjög órökrétt að lífeyrissjóðunum sé óheimilt að lána verðbréf. Slík heimild myndi hvort tveggja bæta virkni verðbréfamarkaðarins, og koma sér vel fyrir lífeyrissjóðina, og því landsmenn alla.

Þá séu mun meiri takmarkanir á heimildum sjóða almennt hér á landi til verðbréfalána en í regluverki ríkja með þróaðan verðbréfamarkað, til dæmis Norðurlandanna.

Eins og sagt var frá í gær ákvað vísitölufyrirtækið FTSE að skráð fyrirtæki á Nasdaq Iceland verði gjaldgeng í vísitölumengi þess frá og með september á þessu ári, en Páll segir að verði rétt haldið á spilunum geti íslenski markaðurinn verið kominn í hæsta gæðaflokk á heimsmælikvarða innan áratugs.

Hann segir miklar takmarkanir á lánveitingum verðbréfa hér á landi, meira að segja í þeim tilfellum þar sem það er leyft. „Í danskri löggjöf er sem dæmi talað um að verðbréfasjóður geti lánað verðbréf að því marki sem það eykur skilvirkni eignastýringar, sem er auðvitað mjög rökrétt viðmið.“

Í umræðunni er skortsala oft tengd braski og áhættusækni. Páll segir hins vegar verðbréfalán ekki þurfa að vera sérstaklega áhættusöm. Þvert á móti geti þau bætt virkni markaðarins og á sama tíma komið sér vel fyrir lífeyrissjóðina, og þar með landsmenn alla. „Það er auðvitað alls staðar kveðið á um miklar tryggingar, enda kannast ég ekki við að stofnanafjárfestar eða aðrir séu að tapa bréfum út af lánveitingum þar sem þær eru heimilar.

Sjóður sem situr á bréfum sem hann ætlar að eiga í lengri tíma getur, gegn öruggum tryggingum, lánað þau bréf og þá haft af því algerlega áhættulausar viðbótartekjur, sem sannarlega eykur skilvirkni í eignastýringu. Þessi löggjöf kemur því í raun í veg fyrir að eigendur hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum og lífeyrisþegar njóti að fullu góðs af þeim möguleikum sem standa þessum aðilum til boða annars staðar og hefur þannig af þeim ákveðinn ávinning.

Þetta hefði því tvíþættan tilgang: að bæta hag rétthafa í lífeyris- og verðbréfasjóðum annars vegar og hins vegar myndi þetta bæta verðmyndun, og auka þannig skilvirkni verðbréfamarkaðarins, og í því felst auðvitað ákveðin fjárfestavernd. Þarna væri því hægt að slá tvær flugur í einu höggi á skömmum tíma og koma okkur þar með þeim mun nær því að vera fyrsta flokks markaður.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .