Hergagnaframleiðandinn Lockheed Martin hagnaðist um 1,42 milljarða dollara á öðrum ársfjórðungi þessa árs en fyrirtækið birti uppgjör sitt nú fyrir skömmu. Hagnaður fyrirtækisins jókst um 22% frá sama tímabili í fyrra.

Tekjur Lockheed, sem er stærsti birgi Bandaríkjahers af hergögnum, námu 14,43 milljörðum dollara á tímabilinu og jukust um 8% frá sama tímabili í fyrra. Þá nam hagnaður á hlut 5 dollurum en meðaltal greiningaraðila hafði gert ráð fyrir 4,74 dollurum á hlut.

Þá hækkaði fyrirtækið afkomuspá sína í annað sinn á þessu ári. Fyrirtækið gerir nú ráð fyrir að hagnaður á hlut verði á bilinu 20,85-21,15 dollarar en áður var gert ráð fyrir 20,05-20,35 dollara hagnaði á hlut. Að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins er aukin eftirspurn eftir F-35 orustuþotum helsta ástæða þess að afkoma félagsins verði betri en áður var gert ráð fyrir.

Gengi hlutabréfa Lockheed Martin hefur hækkað um rúmlega 35% það sem af er ári. Fjárfestar virðast hafa tekið vel í uppgjör fyrirtækisins en gengi hlutabréfa hefur hækkað um rúm 2% á fyrirmarkaði og stendur nú í 365 dollurum á hlut. Markaðsvirði fyrirtækisins er um 103 milljarðar dollara og hefur aldrei verið hærra.