Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, segir að fundargerðir sanni að hann hafi ekki farið bak við stjórn samtakanna og ráðið sjálfan sig sem framkvæmdastjóra. Aftur á móti geti hann ekki sýnt fundargerðirnar því hann sé bundinn trúnaði. Þetta kom fram í viðtali við Ólaf í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Í gærkvöldi birtust fréttir af því að stjórn samtakanna bæri ekki lengur traust til Ólafs. Í yfirlýsingu frá stjórn samtakanna, sem Viðskiptablaðið og fleiri miðlar hafa greint frá , segir að ástæður vantrausts séu fyrst og fremst að ráðningarsamningur formanns hafi ekki verið borinn undir stjórn og að skuldbindingar vegna reksturs bifreiðar hafi verið án vitundar og samþykkis stjórnar.

„Þetta eru ósannar ásakanir vegna þess að það er rangt að ég hafi gert einhvern samning við sjálfan mig það er bara ekki svo," sagði Ólafur í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann segist ekki hafa haft neina aðkomu aðra að þessum samningi en að hafa skrifað undir hann og það sama gildi um bifreiðina.

Ólafur segist áfram ætla að gegna formennsku í samtökunum.