Icelandair telur ólíklegt að samningaviðræður við flugfreyjur muni skila árangri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar.

Í tilkynningunni kemur enn fremur fram að í vikunni hafi félagið gert Flugfreyjufélagi Íslands sitt lokatilboð en að því hafi verið hafnað.

„Að mati Icelandair eru tillögur FFÍ þess eðlis að samningurinn fari í kjölfarið langt frá þeim markmiðum sem sett voru í kjaraviðræðum félagsins við stéttarfélög flugstétta, en Icelandair hefur þegar gert langtímasamninga við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Flugvirkjafélag Íslands (FVFÍ). Þeir samningar kveða í meginatriðum á um sveigjanleika og viðbót við vinnuskyldu og styðja þar með við markmið Icelandair Group um að auka samkeppnishæfni félagsins á alþjóðamarkaði en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur starfsfólks og tryggja því gott starfsumhverfi,“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt tilkynningunni innihélt tilboð Icelandair sem samninganefnd FFÍ hafnaði eftirgjafir frá fyrra tilboði sem áttu að koma til móts við þau sjónarmið félagsmanna sem upp komu eftir síðasta tilboð Icelandair. Tilboðið fól meðal annars í sér hækkun allra grunnlauna, með sérstakri áherslu á lægstu laun, val um starfshlutfall, að flugstundahámörk innan mánaðar væru færð niður, auk þess sem skorður voru settar um hámarksfjölda lausráðinna flugfreyja og flugþjóna.