Innviðaráðuneytið hefur í tvígang óskað eftir fresti til að svara fyrirspurn ESA, eftirlitsstofnun EFTA, um túlkun og beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IAS) í reikningsskilum Reykjavíkurborgar í tengslum við matsaðferð á félagslegu húsnæði.

Félagsbústaðir, dótturfélag Reykjavíkurborgar, skilgreina fasteignir sínar sem fjárfestingareignir og metur þær því á gangvirði fremur en kostnaðarverði. Þessi matsaðferð ein og sér leiddi til þess að Félagsbústaðir bókfærðu 18,5 milljarða hagnað fyrir árið 2021 .

Í byrjun febrúar kallaði ESA eftir frekari rökstuðningi um reikningsskil borgarinnar og gaf innviðaráðuneytinu frest til 4. mars 2022 til að svara sér. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fékk ráðuneytið frest til 11. apríl til að svara fyrirspurninni. Innviðaráðuneytið segist í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins hafa fengið frest til 29. apríl til að svara erindinu.

Sjá einnig: 70 milljarða bókhaldsvilla?

Í erindinu sem ESA sendi innviðaráðuneytinu í febrúar var sérstaklega bent á túlkun Alþjóðareikningsskilaráðsins á fjárfestingareign samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli fyrir opinbera aðila  („IPSAS“), nánar tiltekið IPSAS 16 staðlinum. Þar sé beinlínis tekið fram að eignir sem notaðar eru undir félagslegt húsnæði, en sem einnig skapa tekjur, þrátt fyrir að leiga sé undir markaðsvirði, séu talin dæmi um eignir sem falli utan skilgreiningar á „fjárfestingareign“.