Össur staðfesti fyrr í dag kaupin á bandaríska fyrirtækinu College Park Industries en Alríkisviðskiptastofnun Bandaríkjanna (FTC) samþykkti samrunann í apríl síðastliðnum. Verðmæti kaupsamningsins er ekki tilgreint.

Í tilkynningunni kemur fram að College Park, sem hefur höfuðstöðvar í Detroit, muni starfa áfram að mestu leyti sem sjálfstæð rekstrareining innan Össurar. Sala fyrirtækisins nam um 20 milljónir dollara eða um 2,7 milljarða íslenskra króna á fjárhagsárinu 2019.

Þegar kaupsamningurinn var upphaflega tilkynntur í júlí í fyrra kom fram að fyrirtækin væru í aðstöðu til að geta breikkað vöruúrval gervilima á efri og neðri helmingi líkamans.