Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður til margra ára, hefur stofnað byggingafyrirtækið DEHÚS byggingafélag ehf. ásamt tveimur öðrum einstaklingum samkvæmt skráningu í Lögbirtingablaðinu. Össur er skráður sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins með honum að félaginu standa Þórarinn Magnússon, fyrrverandi formaður Verkfræðingafélags Íslands og Einar Karl Haraldsson. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.

Í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar kemur fram að byggingafélag Össurar hafi sótt um sex lóðir í bæjarfélaginu. Þá hafi hann enn fremur óskað eftir skipulagsbreytingum fyrir lóðirnar.

Össur Skarphéðinsson var þingmaður á árunum 1991 til 2016, fyrst fyrir Alþýðuflokkinn en seinna meir tók hann þátt í stofnun Samfylkingarinnar 1999. Hann var umhverfisráðherra á árunum 1993-1995, iðnaðarráðherra 2007-2009 og utanríkisráðherra 2009-2013. Áður hafði hann m.a. verið ritstjóri Þjóðviljans, Alþýðublaðsins og DV. Össur er þó ekki ókunnugur atvinnulífi og einkageira, því hann var aðstoðarforstjóri Reykvískrar endurtryggingar árin 1989-91.