Félag atvinnurekenda (FA) segir að Íslandspóstur snúi öllu á haus með nýtilkynntri breytingu á gjaldskrá sinni. Breytingin nú hefði verið óþörf ef fyrirtækið og opinberar stofnanir hefðu farið að lögum.

Í gær var tilkynnt að verðskrá Póstsins fyrir 0-10 kílógramma pakka og fjölpóst myndi taka breytingum frá og með næstu mánaðamótum. Tilefnið er lagabreyting á nýsamþykktum póstlögum sem felur í sér afnám svokallaðs „eitt land, eitt verð“ fyrirkomulags. Verð á landsbyggðinni muni hækka en í nokkrum vöruflokkum á höfuðborgarsvæðinu mun það lækka.

Ítarlega hefur verið fjallað um ákvæðið, aðdraganda þess og afleiðingar, í Viðskiptablaðinu. Við meðferð frumvarpsins lagði umhverfis- og samgöngunefnd til breytingu sem fól í sér að gjald fyrir alþjónustu skyldi vera hið sama um land allt með tilliti til byggðasjónarmiða. Lögin kváðu að sama skapi á um að verð skyldi taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði en auga leið gefur að kostnaður við þjónustu í dreifðari byggðum er meiri en í þéttbýli.

Sú leið var farin að lækka verð á landinu öllu niður á verðið sem gildir á ódýrasta svæðinu, það er höfuðborgarsvæðinu. Mismunurinn, sem taldi hundruð milljóna, var síðan sendur á eigandann sem kostnaður við að veita alþjónustu.

„Þegar Alþingi samþykkti árið 2019 að eitt verð skyldi gilda fyrir pakkasendingar um allt land, fylgdi þeirri samþykkt engin ákvörðun um að ríkið skyldi niðurgreiða sendingarkostnað. Þvert á móti stóð óhaggað það ákvæði póstlaganna að gjaldskrá fyrir alþjónustu skyldi taka mið af raunkostnaði við að veita hana - með öðrum orðum að slíka þjónustu megi ekki niðurgreiða (nema við mjög afmarkaðar aðstæður). Það var Íslandspóstur sem braut það ákvæði laganna með því að ákveða eitt verð um allt land, sem var langt undir raunkostnaði - og heimta svo niðurgreiðslu frá ríkinu. Sú niðurgreiðsla var samþykkt, sem var líka lögbrot,“ segir í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu FA.

Ákvæðið um „eitt land, eitt verð“ var fellt út af þingi nú í vor en flutningafyrirtæki á landsbyggðinni höfðu mjög þrýst á um að það væri gert. Niðurgreiðslan þýddi að þeim væri ókleift að keppa í verðum við Póstinn og að smærri pakkar hefðu einfaldlega horfið úr kerfum þeirra eftir breytinguna.

„Alþingi afnam á ný ákvæðið um eitt verð um allt land til að koma ríkinu út úr þessu klúðri - sem hefði út af fyrir sig ekki verið nauðsynlegt ef bæði Pósturinn og opinberar stofnanir, sem eiga að hafa eftirlit með starfsháttum ríkisfyrirtækisins, hefðu farið að lögum,“ segir FA.