Það er nánast fastur liður þegar hryðjuverkaárásir dynja yfir, líkt og heimurinn fylgdist með af hryllingi á Nýja-Sjálandi á dögunum, að þá hefst deila í netheimum um hvað séu hryðjuverk og hvað ekki, hvað greini að hryðjuverk frá öðrum ódæðisverkum.

Nú liggja fyrir tilteknar skilgreiningar á hryðjuverkum, sem stjórnvöld notast við og nokkur sátt er um. Ekki þó alls staðar því hinar sömu, staðbundnar erjur og tilfinningar geta ráðið þar miklu um, en víðast hvar í hinum vestræna heimi eru menn nokkuð á einu máli um það og víðtækt samstarf yfirvalda til þess að verjast þeim.

Almennt má segja að hryðjuverk séu ofbeldisverk, gjarnan gagnvart grandalausum almenningi, sem gerð eru af skipulögðu og yfirlögðu ráði í því skyni að valda skelfingu, þar sem að baki búa pólitískar, trúarlegar eða hugmyndafræðilegar hvatir.

Algeng kvörtun vökuls fólks er að múslimar sæti sérstökum fordómum vegna hryðjuverka í nafni Íslam og að fjölmiðlar séu mun fljótari til við að nefna það hryðjuverk ef múslimar eru viðriðnir einhver ódæði, heldur en þegar fölir þjóðernisöfgamenn láta til skarar skríða.

Þannig hafi t.d. margir verið hikandi við að tala um ódæðismanninn í Utøya sem hryðjuverkamann, þó að markmið hans, ásetningur og undirbúningur ættu að taka af allan vafa um það. Það kann nokkuð að vera til í því, þó það þurfi ekki að sanna neitt. Hugsanlega réði almennur málskilningur um hryðjuverkamenn sem samsærismenn - hluta af hóp eða hreyfingu - því að sumum þótti það óviðeigandi um norska einfarann. En auðvitað á ekkert annað orð við. Ekki frekar en um ófétið á Nýja-Sjálandi, sem lýsti sér raunar sem vopnabróður þess norska.

* * *

Það var því kannski fyrirsjáanlegt að einhver tæki þann þráð upp þegar viðurstyggðin í Christchurch blasti við. Hugsanlega vegna þess að í upphafi voru yfirvöld á Nýja-Sjálandi eilítið tvístígandi og tönnluðust á atburðinum sem „skipulögðum og fordæmalausum árásum", en síðar skilgreindu þau hann sem hryðjuverk. Mögulega hafði það áhrif á einhverja fjölmiðla, a.m.k. fannst einhverjum tilefni til þess að spyrja á netinu hvers vegna íslenskir fjölmiðlar skautuðu hjá orðinu „hryðjuverk".

Fjölmiðlarýnir athugaði þess vegna hvernig þessu hefði verið farið, en það er skemmst frá því að segja að allir fjölmiðlar greindu frá voðanum sem hryðjuverki frá fyrstu tíð, þó að vissulega mætti finna stöku fréttir, sem sögðu frá tilteknum þáttum málsins og töluðu um skotárás fremur en hryðjuverk. En þær voru örfáar. Svo sennilega var spurningin sett fram í takt við það sem fyrirspyrjandinn hélt eða vildi halda. En það eru þá fordómar á sinn hátt líka.

* * *

Það var þó ekkert hjá ýmsum þeim viðbjóði, sem líta mátti í athugasemdum við fréttir á þeim vefmiðlum sem þær leyfa. Þar vall fram andstyggðin og mannhatrið, sérstaklega um múslima, en einnig virtust íslensk útlendingamál eitthvað vefjast fyrir sumum, sennilega viðbrögð við mótmælum No Borders á Austurvelli. Þetta var ekki fjölmennur hópur, sem svo hafði sig í frammi en með fádæmum orðljótur og höfðu sumir uppi óbeinar hótanir um að réttast væri að „skjóta draslið" (fólk) og annað í þá veru.

Það má hafa áhyggjur af slíkum viðhorfum og kannski ekki síður því hvað sumir virðast ófeimnir við að láta hroðann í ljós, margir undir nafni.

Það vekur þó ekki síður spurningar um ábyrgð fjölmiðlanna, sem láta slíkar athugasemdir átölulausar.

Nú er auðvitað ljóst hvað fyrir þeim vakir með því að hafa opin sjálfvirk athugasemdakerfi með þessum hætti. Með því vilja þeir fá fram aukna virkni á fréttasíðum sínum, sem getur kallað á aukinn lestur og fleiri smelli, sem auglýsendur borga svo í samræmi við. Og jú, þar er líka að baki viðleitni til þess að fóstra opinskáa þjóðfélagsumræðu og það allt.

En þeir geta ekki skákað í því skjólinu þegar gallið flæðir um síður þeirra. Vissulega bregðast þeir flestir við athugasemdum um óviðurkvæmilegar athugasemdir, sumir þeirra loka fyrir umræðu um viðkvæm mál eða sérstök hitamál, reyna að fá fólk til þess að skrá sig og þar fram eftir götum. Flest af því miðar hins vegar að því að byrgja brunninn eftir á. Og þá er það of seint.

Fjölmiðlum er ritstýrt og það er ekki ómögulegt að gera það við athugasemdir lesenda líka, þó það sé ómak og lítt gefandi starfi fyrir fámennar og fátækar ritstjórnir.

En það má líka vel spyrja hvort miðlarnir hafi virkilega svo mikið upp úr athugasemdakerfunum. Hvort þeir -  vörumerkin -  laskist ekki þegar skríllinn leikur þar lausum hala, jafnvel með orðbragði sem mögulega gæti bakað miðlunum ábyrgð.

Þessir virku í athugasemdunum eru ekki nýtt vandamál í íslenskum miðlum og raunar ekki í erlendum miðlum heldur. Það er enda svo að fjölmargir málsmetandi miðlar hafa lokað fyrir athugasemdakerfin fyrir fullt og allt, ekki þótt þau svara kostnaði. Hvorki fjárhagslega, fyrir ímynd miðilsins né þannig að þær auki vægi frétta hans.

* * *

Aftur að hryðjaverkamanninum í Christchurch. Ýmsir hafa orðið til þess að stinga upp á því að hann sé ekki nafngreindur í fjölmiðlum og að áróðursefni hans og upptöku af slátruninni sé ekki dreift. Það er gilt sjónarmið og skiljanlegt, því það er athyglin sem ómennin sækjast eftir.

Fyrir fréttamiðla er það þó eilítið flóknara. Þeir segja fréttir og þar undir fellur að nafngreina ódæðismenn og segja frá verknaði þeirra. Það er óhjákvæmilegt. Þar með er ekki sagt að nefna þurfi manninn í sífellu, allar fréttir þaðan í frá, hvað þá að vísað sé til áróðurs hans eða miðlað áfram. Hér að ofan hefur hann hvergi verið nefndur, án þess að lesandinn hafi saknað þess.

* * *

Annað þessu skylt: DV sagði frétt af tilraunum nýnazista til þess að hreiðra um sig á Íslandi. Með fylgdi erlent mynd af kröfugöngu erlendra nýnasista, sem búið var að skeyta inn á íslenskum spjöldum, svo lesandinn gat vart dregið aðra ályktun en að þar væru íslenskar kynþáttabullur á ferð. Myndinni fylgdi hvorki myndatexti til skýringar né merking um að hún væri samsett. Það gengur ekki og sú fölsun dró mjög úr trúverðugleika annars forvitnilegrar fréttar.