Sérfræðingar á fasteignamarkaði hafa áhyggjur af því að ef ekki verði haldið rétt á spilunum verði mögulega of mikið byggt á fasteignamarkaði á næstu árum. „Það er verið að byggja mjög mikið nú þegar. Hugsanlega er verið að byggja of mikið af stórum íbúðum sem er ekki sérstaklega mikil eftirspurn eftir,“ segir Ari Skúlason, sérfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans. Ari bendir á að nýjar íbúðir sem seldar hafa verið á þessu ári séu að meðaltali um hundrað fermetrar. „Það er væntanlega ekki það sem markaðurinn vill fá,“ segir Ari. Þeir sem séu í þrengstri stöðu á húsnæðismarkaði sé ungt fólk og þeir sem eru á leigumarkaði.

Ari bendir á að í könnun sem Capacent vann fyrir Reykjavíkurborg kom fram að 60% þeirra sem eru á leigumarkaði eigi minna en fimm milljónir í eigið fé. Með fimm milljónir í eigið fé fáist einungis um 25 milljóna króna íbúð miðað við 80% lánsfjármögnun og slíkt dugi ekki fyrir íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma eigi aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld í viðræðum um uppbyggingu á húsnæðismarkaði sem hluta af yfirstandandi kjaraviðræðum. Ekki liggi fyrir að fullu um hvað felst í viðræðunum. „En ef verið er að tala um að það þurfi að byggja einhvern massa af íbúðum sem eru taldar passa fyrir þennan hóp, bæði í í stærð og verði, er töluverð hætta á að það verði umframframboð á markaðnum.“ Íbúðirnar komi þá til viðbótar við það sem þegar liggur fyrir að verið er að byggja. Samkvæmt íbúðatalningu Samtaka iðnaðarins voru 4.800 íbúðir í byggingu í september samanborið við 3.700 íbúðir ári fyrr og um 3.000 íbúðir haustið 2016.

Þurfi að byggja á ódýrari svæðum

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir ljóst að ekki hafi verið byggt fyrir þann hóp þar sem þörfin sé mest. „Framboðið á íbúðarhúsnæði hefur að mikið leyti verið dýrar íbúðir á þéttingarreitum. Það hefur skort á hagkvæmari kosti, minni íbúðir og íbúðir í úthverfum á ódýrari lóðum. Verkefnið sem blasir við er að tryggja íbúðir sem henta þessum kaupendahóp. Ég sé ekki hvernig það er gert án þess að byggja fyrir þennan hóp,“ segir Ingólfur. „Það er meðal annars verkefni kjarasamninga að skapa þetta framboð. Við vonum að menn nái einhverjum samnefnara því þetta er mikið hagsmunamál fyrir heimilin í landinu. Þetta hefur verið að rýra hag þeirra. Húsnæðisverð hefur verið að hækka talsvert umfram laun sem gerir það að verkum að erfiðara er að eignast fyrstu íbúð sem þýðir að fólk festist í leiguhúsnæði,“ segir Ingólfur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .