Hinn venjulegi bandaríski starfsmaður sem á rétt á launuðum frídögum nýtti einungis 54% af þeim dögum sem hann átti rétt á síðastliðnum 12 mánuðum. Þetta kemur fram í könnun frá bandaríska ráðningafyrirtækinu Glassdoor. Er þetta í takt við niðurstöður fyrirtækisins frá árinu 2014 þegar einungis 51% frídaga voru nýttir.

Þó að örlítil aukning sé í nýttum frídögum þá fækkar þeim starfsmönnum sem tekst að slíta sig alveg frá vinnu þegar þeir eru í fríi. Einungis 54% starfsmanna tekst að slíta sig alveg frá vinnu samanborið við 63% árið 2014. Jafnframt kemur fram í könnun Glassdoor að gerðar eru kröfur til 27% starfsfólks að það fylgist með því sem við kemur starfi þeirra meðan viðkomandi er í fríi. Einnig er gerð sú krafa að starfsmaður skuli vera tilbúinn að koma til starfa ef þörf er á viðveru hans.

Starfsöryggi lítið

Samkvæmt greiningaraðila hjá Glassdoor mun helsta ástæðan fyrir  vannýttum frídögum vera sú að starfsmenn óttast að vera reknir úr starfi sínu ef þeir fullnýti þá frídaga sem þeir eiga rétt á. Flest bandarísk fyrirtæki starfa samkvæmt þeirri stefnu að hægt er að segja fólki upp vegna hvað ástæðu sem er eða án nokkurrar ástæðu. Eina undantekningarnar eru ef um annað hafi verið samið í upphafi ráðningar eða viðkomandi sé meðlimur í stéttarfélagi sem hafi aðrar reglur um starfsumhverfi starfsmanna.