Allt stefnir í að leikarnir verði þeir langdýrustu í sögunni en á sama tíma hefur tekjuhliðin dregist verulega saman vegna erfiðleika tengdum Covid-faraldrinum. Fresta þurfti mótinu um heilt ár vegna kórónuveirunnar og skömmu fyrir mót var tilkynnt að engir áhorfendur yrðu leyfðir.

Skoðanakannanir í Japan sýna að um helmingur almennings hefur verið andvígur því að mótið fari fram. Þá eru ýmsir styrktaraðilar mótsins með efasemdir um aðkomu sína að mótinu, en japanski bílaframleiðandinn Toyota tilkynnti fyrr í vikunni að hann ætlaði ekki að auglýsa á leikunum.

Þrefalt dýrari en stóð til

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar og fræðslu hjá Íslandsbanka, hefur í gegnum árin greint fjármálin sem liggja að baki stórum alþjóðlegum íþróttaviðburðum. Hann segir að Ólympíuleikarnir í ár séu stórmerkilegir fyrir margar sakir, ekki síst að þeir verði þeir langdýrustu í sögunni, en kostnaður mótsins verður að öllum líkindum yfir 3.000 milljarðar króna.

„Tókýóleikarnir áttu að verða dýrir í sögulegu samhengi en ekki þeir dýrustu. Kostnaðurinn hefur hins vegar blásið út og mótið verður að líkindum þrisvar sinnum dýrara en til stóð.“

Björn segir að kórónuveiran hafi reynst mótshöldurum mjög dýr. Mikinn kostnað megi rekja til frestunarinnar, þar á meðal auknar launagreiðslur í heilt ár, ásamt öllum sóttvarnarráðstöfunum sem fylgi því að halda mótið í núverandi árferði. Hins vegar sé meginskýringin á framúrkeyrslunni sama gamla sagan: gróft vanmat í fjárhagsáætlun.

„Það sem gerist nú er það sama og hefur gerst á flestum öðrum leikum. Ólympíuleikar hafa frá árinu 1960 aldrei staðist fjárhagsáætlun, hvorki vetrar- né sumarleikarnir, og að meðaltali hafa þeir farið 150% fram úr áætlun. Kostnaður er áætlaður áður en búið er að hanna innviði og ólympíuþorpið en hann reynist nær alltaf miklu meiri þegar uppi er staðið. Þetta mót er bara klassískt hvað það varðar,“ segir Björn.

Auk meiri kostnaðar er ljóst að tekjur af mótinu verða talsvert minni en útlit var fyrir. Alls eru 339 viðburðir á leikunum í ár og áætlaðar tekjur af miðasölu, sem mótshaldarar verða af, voru um 100 milljarðar króna. Við bætist tekjumissir heimamanna við það að ferðamenn komist ekki og hljóðar tekjutapið í heild upp á 250 milljarða króna.

Aftur á móti segir Björn að útsendingartekjur sem sjónvarpsstöðvar greiði fyrir sýningarrétt séu enn að aukast milli leika. Minni afföll hafi verið af þeirri tekjustoð, þar sem oft sé samið um nokkra leika í einu. Samkvæmt tölum frá Alþjóðaólympíunefndinni námu tekjur af sýningarréttum fyrir Ólympíumótið árið 2016 í Ríó 2,9 milljörðum dala, jafnvirði 359 milljarða íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .