Staðan á íslenskum vinnumarkaði er alvarleg. Forsvarsmenn Eflingar, VR , Verkalýðsfélags Akraness ( VLFA ) og Verkalýðsfélags Grindavíkur funduðu með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins (SA), hjá ríkissáttasemjara í gærmorgun. Var þetta þriðji fundurinn hjá ríkissáttasemjara. Fyrsti fundurinn var haldinn á milli jóla og nýárs og annar fundurinn fór fram á miðvikudaginn í síðustu viku.

Fyrr í vikunni sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR , að ef fundurinn yrði árangurslaus yrði viðræðum líklega slitið. Eftir fundinn var annað hljóð í Ragnari Þór. Sagði hann í viðtali við RÚV að fundurinn hefði verið góður að því leyti að nú hefðu stéttarfélögin fengið afstöðu Samtaka atvinnulífsins til ýmissa mála. Fulltrúar stéttarfélaganna myndu nú fara með þær upplýsingar inn í sín félög og ræða það sem fram hefði komið á fundinum með sínu baklandi. Vegna þessa hefði verið tekin ákvörðun um að slíta viðræðunum ekki á þessum tímapunkti. Næsti fundur verður haldinn hjá ríkissáttasemjara á mánudaginn.

Blikur á lofti

Þó að viðræðum hafi ekki verið slitið í gær eru blikur á lofti. Í ljósi þess hvernig þau Ragnar Þór, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA , hafa talað í aðdraganda samninganna og meðan á viðræðum hefur staðið er alls ekki ósennilegt að viðræðum verði fljótlega slitið. Þau hafa einnig ítrekað sagt að ýmsar kröfur séu ófrávíkjanlegar, en slíkt er mjög óvenjulegt. Í samningaviðræðum þurfa báðir aðilar yfirleitt að gefa eftir.

Verði viðræðum slitið liggur alveg ljóst fyrir að félögin munu boða til kosninga á meðal sinna félagsmanna um verkfallsaðgerðir.

Samþykki félagsmenn að fara í verkfall er alveg ljóst að það mun hafa víðtæk áhrif á íslenskt atvinnulíf. Bæði Efling og VR eru stór stéttarfélög. Vissulega eru ekki allir félagsmenn þeirra hluti af viðræðunum við SA – starfandi á almennum markaði. Töluverður fjöldi félagsmannanna er á opinbera markaðnum þar sem viðsemjendurnir eru ríkið og sveitarfélög.

29% launþega

Viðskiptablaðið óskaði eftir upplýsingum um það frá ríkissáttasemjara hversu samningarnir við SA næðu til margra félagsmanna. Hjá VR ná þeir til 33.200 félagsmanna, hjá Eflingu ná þeir til 17.950, hjá VLFA til 2.509 og hjá Verkalýðsfélagi Grindavíkur um 1.200.

Samningarnir ná því samtals til 54.900 launþega hjá VR , Eflingu, VLFA og VLFG . Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar er fjöldi launþega á landinu öllu um 192 þúsund. Verkfall félaganna myndi því ná til 29% íslenskra launþega. Þeir starfa ansi víða. Þetta er til dæmis verslunar- og skrifstofufólk, hópferðabílstjórar, flugvallarstarfsmenn, þjónustufólk á hótelum, hafnarverkamenn og fólk í fiskvinnslu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér .