Velta á hlutabréfamarkaði í Kauphöll Íslands hefur minnkað milli ára en á fyrstu níu mánuðum þessa árs var hún um 27% minni en á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í nýútgefnu riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika.

Hlutabréfavísitalan OMXI8 hefur verið sveiflukennd á árinu en í lok september síðastliðnum var hún í svipuðum gildum og í ársbyrjun.

„Verðþróun einstakra félaga hefur verið mismunandi það sem af er ári en fjögur af átján skráðum félögum hafa hækkað í verði frá ársbyrjun. Markaðsvirði skráðra félaga nam 1.002 ma.kr. í lok september sem er nokkru hærra en um áramót en það helgast fyrst og fremst af nýskráningu Heimavalla hf. og Arion banka hf. Það sem af er ári hefur bein veðsetning á íslenskum hlutabréfamarkaði lækkað úr rúmum 13% í um 12%, einkum vegna nýskráningar Arion banka í Kauphöll Nasdaq á Íslandi," segir í ritinu.

Óvissa vegna niðurstöðu í komandi kjarasamningum

Meginvextir Seðlabankans hafa verið óbreyttir það sem af er ári eða um 4,25%. Þá hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkað en ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur lækkað það sem af er ári.

„Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur því hækkað en óvíst er hversu mikið af þeirri hækkun má rekja til hækkandi áhættuálags óverðtryggðra langtímaskuldabréfa og hve mikið til hærri verðbólguvæntinga. Mögulegt er að hækkun verðbólguvæntinga endurspegli óvissu vegna niðurstöðu komandi kjarasamninga," segir í ritinu.

Óvissa í ferðaþjónustu hefur áhrif á gengið

Frá því í vor hefur flökt í gengi krónunnar aukist en í byrjun september veiktist hún um nærri 6% á nokkrum dögum. Talið er að óvissa í ferðaþjónustu hafi hér áhrif. Seðlabankinn greip inn í á gjaldeyrismarkaðinn þann 11. september en það er í fyrsta skiptið sem bankinn greip til þeirra aðgerða síðan í nóvember á síðasta ári.

„Raungengi krónunnar miðað við hlutfallslegt verðlag hélst tiltölulega stöðugt á fyrri árshelmingi 2018 en gaf eftir þegar leið á haustið. Í lok september var raungengið tæplega 1% lægra en á sama tíma í fyrra. Viðskiptakjör hafa rýrnað samfleytt síðastliðna fjóra ársfjórðunga og voru í lok júní sl. áþekk því sem þau voru um mitt ár 2016. Þróunina má m.a. skýra með almennri hækkun innflutningsverðs og þá einna helst mikilli hækkun eldsneytisverðs," segir í ritinu.