Stærsta alþjóðlega flugfélag Indlands, Jet Airways, er komið í vanskil með endurgreiðslur láns frá viðskiptabönkum sínum. Framtíð flugfélagsins er óviss, en yfir 145 þúsund flugferðir voru flognar á vegum félagsins á síðasta ári, og er félagið stærsta flugfélag heims á þann mælikvarða.

Félagið tilkynnti um vanskilin í kauphallartilkynningu, og sagði ástæðuna vera „tímabundið misræmi í sjóðstreymi“, en gaf ekki upp upphæð hinnar gjaldföllnu greiðslu, sem átti að fara fram á gamlársdag.

Hið 26 ára gamla flugfélag hefur átt í miklum fjárhagserfiðleikum frá því í haust, og bæði launagreiðslur þess og leigugreiðslur fyrir flugvélar hafa dregist. Við síðasta fjórðungsuppgjör í lok september var eigið fé félagsins neikvætt um tæpa 100 milljarða indverskra rúpía, eða um 163 milljarða íslenskra króna.

Meðal ástæðna versnandi gengis í haust var hækkandi olíuverð, en það hefur síðan lækkað mikið. Félagið hefur hinsvegar lengi verið að tapa markaðshlutdeild, og Financial Times segir slæma stjórnun hafa grafið mjög undan samkeppnishæfni þess.