Smittölur síðustu vikna hér á landi hafa gefið von um að mögulega sé að hægja á för veirunnar hér á landi. Tíðindin frá nágrannalöndunum hafa hins vegar verið með versta móti. Meira að segja ríki sem plummuðu sig ágætlega í fyrstu bylgjunni hafa nú þurft að grípa til örþrifaráða til að reyna að forða því að yfirfylla heilbrigðisstofnanir. Nægir að horfa til Danmerkur og Þýskalands í því sambandi.

„Þótt jákvæðar fregnir af bólusetningum hafi borist þá er óvissan enn mjög mikil á öllum okkar mörkuðum en áætlanir okkar gerðu ráð fyrir óvissu í talsvert langan tíma. Grunnfjárfestakynningin sem við kynntum síðasta haust gekk út frá því að framleiðslan í ár yrði tæpur helmingur af því sem hún var árið 2019 og að pari við það ár verði náð árið 2024,“ segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.

Lykilatriði sé að það liggi skýrt fyrir hvernig fyrirkomulagið á landamærunum verður. „Við erum undir það búin að ræsa allt á ný með tiltölulega skömmum fyrirvara. Við sáum það síðasta sumar að það var mikil eftirspurn eftir því að koma til Íslands og hið sama gerðist þegar jákvæðar fregnir af bóluefnum tóku að berast. Ísland er eftirsóknarverður áfangastaður og leiðarkerfi okkar hentar vel sem tenging milli Ameríku og Evrópu. Lykilatriðið er aftur á móti að það séu skýrar línur um hvernig staðan á landamærunum verður.“

Bólusett Ísland markaðssett?

Ísland hefur verið í samfloti með þjóðum Evrópusambandsins hvað afhendingu á bóluefni varðar en ríkin hafa fengið jafnmarga skammta afhenta óháð höfðatölu. Þar gæti fámenni Íslands reynst gæfa enda þarf færri glös til að bólusetja 350 þúsund heldur en 50 milljónir. Þeirri hugmynd hefur verið velt upp hvort mögulegt sé að markaðssetja Ísland sem „bólusettan áfangastað“ þá í krafti þess að landinn geti hvorki smitast af ferðalöngum né smitað aðra. Heimildir blaðsins herma að slíkar hugmyndir séu til skoðunar en áður en slíkt verði ákveðið þurfi að fá skýrari mynd á virkni og vörn bóluefnanna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .