Tesla kynnti sinn nýjasta bíl í nótt, pallbíl sem ber heitið Cybertruck og mun drífa allt að 800 kílómetra á einni hleðslu. Verðið verður frá 40 þúsund dölum – um 5 milljónum króna – og bíllinn mun rýma sex fullorðna. Þá verður hann búinn stillanlegri loftpúðafjöðrun og dráttargetan verður allt að sex og hálft tonn.

Elon Musk, forstjóri Tesla, gerði mikið úr styrkleika ytra byrði bílsins, sem er úr hertu stáli, í kynningu sinni í nótt. Hann lét hönnunarstjóra sinn, Franz von Holzhausen, meðal annars lemja hurð bílsins með sleggju, og sýndi af því myndband þegar 9mm byssukúlu var skotið á hann. Hvorugt hafði teljandi áhrif á bílinn.

Þegar kom að rúðuglerinu, sem einnig er styrkt, gekk þó ekki eins vel . Von Holzhausen henti stálkúlu í fremri hliðarrúðuna með þeim afleiðingum að rúðan sprakk. Eftir nokkurn vandræðaleika afréð hann að reyna aftur við afturrúðuna og kasta lausar, en allt kom fyrir ekki og hún brotnaði líka. Musk blótaði hressilega við þetta, en brást síðan léttur við og sagði að það væri þá eitthvað til að vinna í.

Ódýrasta útgáfan verður afturhjóladrifin með einn mótor, 400 kílómetra drægni, tæplega 3,5 tonna dráttargetu og 6,5 sekúndur í hundraðið. Fyrir auka 10 þúsund dali fæst tæplega 500 kílómetra drægni, tveir mótorar og fjórhjóladrif, 4,5 tonna dráttargeta og 4,5 sekúndur í hundraðið, og fyrir 70 þúsund dali fæst áðurnefnd 800 kílómetra drægni, þrír mótorar og fjórhjóladrif, 6,5 tonna dráttargeta og aðeins 2,9 sekúndur í hundraðið.

Í lok kynningarinnar kynnti Musk svo fjórhjól sem keyrt var upp á pall pallbílsins og komið fyrir þar, hvar hægt er að stinga því í hleðslu og hlaða með rafhlöðum bílsins. Litlar sem engar upplýsingar voru hinsvegar gefnar um hjólið.

Cybertruck verður fáanlegur á Íslandi árið 2022 , og þegar hefur verið opnað fyrir forpantanir.

Umfjöllun The Verge .