Fjárfestirinn Pálmi Haraldsson, fyrrum eigandi Fons, er nú orðinn stærsti einstaki einkafjárfestirinn í hópi hluthafa Icelandair Group. Eignarhlutur Pálma nemur rúmlega einu prósenti. Þrjú félög í hans eigu áttu samtals um 51,3 milljónir hluta, eða að jafnvirði um 423 milljóna króna miðað við núverandi gengi bréfa Icelandair, í lok síðustu viku. Pálmi var á sínum tíma aðaleignandi flugfélagsins Iceland Express. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Eignarhlutur Pálma í Icelandair er meðal annars í gegnum eignarhaldsfélögin Sólvöll og Ferðaskrifstofu Íslands. Það fyrirtæki rekur ferðaskrifstofurnar Sumarferðir, Úrval Útsýn og Plúsferðir. Hann var á sínum tíma stór hluthafi í Icelandair og sat í stjórn félagsins á árunum 2003 og 2004.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals Útsýnar, bjóða sig fram til stjórnar Icelandair Group á aðalfundi flugfélagsins sem fer fram 8. mars næstkomandi og nýtur hún stuðnings Pálma. Þórunn starfaði áður um árabil hjá Icelandair, meðal annars sem stöðvarstjóri í Kaupmannahöfn og hótelstjóri Hótels Loftleiða. Ljóst sé að breytingar verði á stjórn Icelandair. Af sitjandi stjórnarmönnum félagsins hefur Ásthildur Margrét Otharsdóttir, sem hefur verið stjórnarmaður frá árinu 2012, ákveðið að gefa ekki áfram kost á sér til stjórnarsetu.