„Við getum ágætlega við unað,“  segir Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata um niðurstöður skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið um fylgi flokkanna í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

„Þetta er nokkurn veginn á pari við fylgið okkar á landsvísu. Miðað við að bæði ég og Þórgnýr Thoroddsen varaborgarfulltrúi ætlum að hætta og ekki alveg ljóst hver taka við þá held ég að þetta sé fínn árangur og nóg að sækja eftir því sem nær dregur kosningum,“ segir Halldór Auðar.

„Það er klárt mál að það sem við höfum verið að gera á kjörtímabilinu er að skila sér og mjög spennandi barátta framundan." Í ljósi þess að hann ætlar ekki að halda áfram vill Halldór Auðar ekki fara yfir hver verði helstu áherslumál Pírata í kosningunum.

„Það er hins vegar mikill hugur í fólki og málefnastarf komið á fullt.“ Hann segist frekar eiga von á að Píratar vilji halda áfram núverandi meirihlutasamstarfi en útilokar ekkert í þeim efnum.

Hér má sjá viðbrögð annarra forystumanna og fréttir Viðskiptablaðsins af könnuninni: