Þó að Ísland teljist ekki til þróunarríkja er markaður með fyrirtækjaskuldabréf á Íslandi vanþróaður. Markaðurinn hefur ekki náð vopnum sínum jafn vel og hlutabréfamarkaðurinn eftir að báðir markaðir þurrkuðust út í fjármálakreppunni 2008, en hefur þó verið á uppleið frá miðju ári 2014 í kjölfar fimm ára stöðnunar.

Í lok árs 2007 nam verðmæti skráðra fyrirtækjaskuldabréfa á Íslandi um 74% af landsframleiðslu. Í febrúar árið 2008 nam verð- mæti þeirra um 1.155 milljörðum króna. Í dag er verðmæti skráðra fyrirtækjaskuldabréfa (bankavíxlar, skuldabréf banka og skuldabréf fyrirtækja) um 529 milljarðar, sem svarar til um 25% af heildarmarkaðsvirði skráðra skuldabréfa og 24% af landsframleiðslu, en slíkt hlutfall er svipað og gengur og gerist að meðaltali í nýmarkaðsríkjum.

Á þróaðri mörkuðum eru fyrirtækjaskuldabréfamarkaðir um tvöföld eða allt að tíföld landsframleiðsla, og á Norðurlöndunum er hlutfallið á bilinu 60% (í Finnlandi) til 210% (í Danmörku).

Fjármálafyrirtækin og fasteignafélögin bera fyrirtækjaskuldabréfamarkaðinn í dag, en markaðshlutdeild hefðbundinna rekstrarfélaga er mjög lág.

Skuldabréf fjármálafyrirtækja á borð við bankana, tryggingafélaganna og sjóða eru um 64% af markaðsvirði fyrirtækjaskuldabréfa, en þar af er hlutdeild bankanna 74%. Fasteignafélögin og félög í opinberri eigu hafa skráð 16% bréfanna hvor um sig.

Hlutfallsleg skipting útistandandi bréfa á milli fjármálageirans og annarra fyrirtækja er svipað hér og í þróuðum ríkjum, en það er samt sem áður óvenjulegt hversu fá rekstrarfyrirtæki eru skráð á skuldabréfamarkaði, eða undir fimm. Markaðsvirði fyrirtækjaskuldabréfa útgefin af rekstrarfélögum nemur um 1,5% af landsframleiðslu í dag borið saman við um 6% í árslok 2007.

Þróunin á skuldabréfamarkaði hefur enn fremur verið mismunandi á Íslandi og erlendis. Í þróuðum ríkjum hefur magn útistandandi skuldabréfa fjármálageirans lækkað um 10-15% frá miðju ári 2008 á sama tíma og magn bréfa utan fjármálageirans hafa aukist um tvo þriðju. Á Íslandi hefur vöxtur útgáfu á hinn bóginn verið mestur í fjármálageiranum.

Markaðir með fyrirtækjaskuldabréf eru stuðningsfyrirbæri vaxtar í hagkerfinu, enda ein af megin fjármögnunarstoðum þróaðra fjármálamarkaða ásamt eiginfjárgerningum og lánsfé banka. Þeir eru ennfremur visst áhættustýringartæki fyrir einstök fyrirtæki og hagkerfið í heild. Fyrirtæki geta aukið áhættudreifni í fjármögnun með útgáfu skuldabréfa í stað þess að reiða sig nær eingöngu á lánsfé frá bönkum, á meðan bankar geta dregið úr áhættu á efnahagsreikningum sínum og dreift áhættu úr bankakerfinu.

Fjárfestar sækja í öryggi

Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar, segir fjölmargar ástæður vera fyrir því að markaðurinn með fyrirtækjaskuldabréf sé svo lítill sem raun ber vitni eftir hrun, bæði í altækum og hlutfallslegum skilningi.

„Við vorum hér með fyrirtækjaskuldabréfamarkað fyrir hrun sem fór langleiðina með að þurrkast gjörsamlega út árið 2008, líkt og hlutabréfamarkaðurinn. Það er ekkert skrýtið að það hafi þar af leiðandi vantað traust eftir hrun til að byggja upp þennan markað á nýjan leik,“ segir Magnús. Segir hann þetta sjást einna best í þeirri uppbyggingu sem hefur þó átt sér stað hingað til.

„Menn hafa verið með bæði belti og axlabönd, ef svo má að orði komast. Skilmálar hafa orðið viðameiri og svo hafa fjárfestar viljað meira öryggi, enda hefur þessi markaður verið byggður upp af sértryggðum skuldabréfum bankanna og fasteignatryggðum bréfum fasteignafélaganna.“ Magnús bendir einnig á að það sé tiltölulega nýkomið að félög standi á svo föstum grunni eftir hrun að þau geti skráð sig á skuldabréfamarkaðinn, enda er góður rekstur skilyrði fyrir lántöku.

Ástæðan fyrir mismunandi þróun fyrirtækjaskuldabréfamarkaða á Íslandi og erlendis felst meðal annars í mismunandi stöðu bankakerfa og fjárfesta. Hið endurreista bankakerfi á Íslandi hefur mikla lánagetu, en víða í þróuðum ríkjum, einkum í Evrópu, hefur bankakerfið verið veiklað. Vaxtamunur við útlönd hefur síðan verið talsverður. Vextir ríkisbréfa og veðtryggðra bréfa hafa verið háir hér á landi á meðan lágvaxtastefna seðlabanka víða um heim hafa aukið sókn í fyrirtækjaskuldabréf, sem bera að jafnaði hærri vexti en ríkisbréf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .