Peningastefna Seðlabanka Íslands hefur náð töluverðum árangri við að halda verðbólgu í skefjum og skapa verðbólguvæntingum kjölfestu. Verðbólga hefur verið við eða undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans í um þrjú ár samfleytt. Verðbólguvæntingar, mældar í verðbólguálagi til 10 ára og væntingar markaðsaðila til 10 ára, hafa leitað í átt að verðbólgumarkmiði frá árinu 2015. Þó eru blikur á lofti í verðstöðugleika vegna vaxandi framleiðsluspennu í hagkerfinu og þeirri staðreynd að vextir séu í sögulegu lágmarki erlendis.

Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á fundi fulltrúa peningastefnunefndar með efnahags- og viðskiptanefnd í gær.

„Sögulegur árangur“

Þegar fulltrúar peningastefnunefndar komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar í ágúst síðastliðnum var staðan í efnahags- og peningamálum góð. Útflutningsvöxtur var mikill og viðskiptakjarabati og viðskiptaafgangur töluverður. Hrein erlend staða var orðin jákvæð, sparnaður fór vaxandi og atvinnuleysi minnkandi, og hagvaxtarspár voru jákvæðar.

Þó voru áhyggjur um verð- bólguskot umfram markmið vegna ofhitnunar, hækkun launa langt umfram framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið og ofris krónunnar. Þrátt fyrir þetta hafi verðbólga haldist undir markmiði, verðbólguhorfur batnað og verðbólguvæntingar lækkað í markmið.

„Ljóst var að sögulegur árangur við stjórn peningamála var að nást,“ sagði Már. Ástæðan fyrir árangrinum væri aðhaldssemi í vaxtastefnunni og gjaldeyriskaup bankans. Sagði Már að stóra myndin sem nú blasti við væri í grundvallaratriðum hin sama og frá því í ágúst, „nema hvað að velgengnin hefur verið meiri en þá var reiknað með.“ Gert er ráð fyrir því að verðbólga verði undir 3% næstu árin.

Fullnaðarsigur ekki í höfn

Már sagði eina helstu áskorun peningastefnunefndar um þessar mundir snúa að vaxtastiginu.

„Vextir erlendis eru í sögulegu lágmarki á sama tíma og vaxandi spennu gætir í innlendum þjóðarbúskap. Þetta gerir það erfiðara en ella að halda uppi því vaxtastigi hér á landi sem þarf til að ná jafnvægi á milli eftirspurnar og framboðs á innlendum framleiðsluþáttum og halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið,“ sagði Már.

Þar að auki er hagvöxtur mikill hér á landi en slaki og hægagangur í öðrum þróuðum ríkjum þrálátur. Auðveldara sé að halda verðbólgu við markmið innan fjármagnshafta, en þau verða fljótlega horfin.

Már segir þessar ólíku efnahagsaðstæður þó vera að hluta til tímabundnar. „Vaxandi vísbendingar eru um að vextir í helstu viðskiptalöndum munu fara hækkandi á næstu misserum og innlend spenna mun að lokum hjaðna vegna hagstjórnar eða markaðsaðlögunar.“