Töluverðar væringar hafa verið innan verkalýðshreyfingarinnar síðustu misseri og nýir formenn tekið við stjórnartaumunum í VR og Eflingu.

Spurður hvort þessar breytingar muni lita samningaviðræðurnar svarar Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins: „Ég hef aldrei tjáð mig neitt um breytingar innan verkalýðshreyfingarinnar. Ég hef ekki trú á því að persónur skipti svo miklu máli í stóra samhenginu. Þó orðræðan geti breyst þá erum við á endanum að skipta takmörkuðum verðmætum og það er það sem ræður niðurstöðunni á endanum.

Ég held að allir sanngjarnir menn, sem líta á þær launahækkanir sem atvinnulífið er búið að taka á sig síðustu þrjú ár, geti ekki haldið því fram að atvinnulífið hafi ekki staðið við það sem það sagðist ætla að gera. Það má með sannfærandi rökum segja að síðustu kjarasamningar hafi verið of bólgnir. Þeir hefðu leitt til talsvert verri stöðu en við erum í núna ef þessir jákvæðu ytri þættir, sem ég hef nefnt, hefðu ekki lagst á sveif með okkur.

Það getur enginn haldið því fram að það eigi að fara sömu leið aftur. Þess vegna held ég að verkalýðshreyfingin sé í auknum mæli að beina sjónum sínum að stjórnvöldum með áherslu á að laga bótakerfið og gera breytingar á skattkerfinu. Þetta eru þríhliða viðræður Samtaka atvinnulífsins, verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda. Þetta er engin orrusta heldur samstarf um að leiða ákveðin mál til lykta og ég held að sú staðreynd sé að renna upp fyrir sífellt fleirum. Á endanum er þetta samningur sem allir þurfa að undirrita og samningar nást með málamiðlunum. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það áfram.“