Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur falið Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að útnefna alþjónustuveitanda í pósti frá og með áramótum. Frá samþykkt nýrra laga um póstþjónustu, sem taka gildi um áramótin, hafa samningaviðræður staðið yfir milli ríkisins og Íslandspósts (ÍSP) um þjónustuna en þær virðast ekki hafa borið árangur.

Nýju lögin fela í sér að einkaréttur ríkisins – og þar með ÍSP – á dreifingu bréfa undir 50 grömmum fellur niður. Eftir sem áður verður ríkinu skylt að uppfylla lágmarkspóstþjónustu fyrir landið allt á jafnræðisgrundvelli, svokallaða alþjónustu.

Við meðferð frumvarpsins á þingi var því breytt af umhverfis- og samgöngunefnd á þann veg að verð fyrir alþjónustu skyldi vera hið sama um landið allt óháð því hvort um arðbær svæði sé að ræða eður ei.

„Ráðuneytið hefur frá samþykkt nýrra póstlaga átt samtal við núverandi alþjónustuveitanda með það að leiðarljósi að afla upplýsinga og eftir atvikum að ná samningi við núverandi alþjónustuveitanda um að sinna alþjónustu í landinu til eins eða tveggja ára frá gildistöku nýrra laga. Í þessum samtölum hefur komið fram að ytri og innri óvissuþættir eru margir, m.a. vegna þess að ráðist hefur verið í umfangsmiklar skipulagsbreytingar og hagræðingaraðgerðir sem ekki sér fyrir endann á. Að auki er stuttur tími til áramóta og gildistöku laganna,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

PFS hefur því verið falið það hlutverk að velja alþjónustuveitanda. Af því leiðir að leggjast þarf í ýmsa útreikninga á hreinum kostnaði alþjónustu til að finna út hve mikið ber að greiða alþjónustuveitanda, sem að öllum líkindum mun verða ÍSP, fyrir þjónustuna.

Við mat á kostnaði alþjónustu er ekki heimilt að taka tillit til kostnaðar sem hlýst af sendingum sem berast erlendis frá enda á ÍSP að fá þau bætt í gegnum sérstök gjöld sem félagið fékk heimild til að leggja á sendingarnar. Viðbúið er að fyrirtækið muni fá minnst tugi milljóna frá eiganda ár hvert fyrir að sinna þjónustunni. Áður hafði fyrirtækið metið að kostnaður sinn vegna alþjónustunnar, svokölluð alþjónustubyrði, næmi hundruðum milljóna ár hvert.