Steinway Musical Instruments Holdings Inc, framleiðandi hinna þekktu Steinway píanóa, ætlar í hlutafjárútboð í gegnum Kauphöllina í New York. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal. Píanóframleiðandinn, sem fagnar 170 ára afmæli sínu á næsta ári, hefur skilað inn gögnum til verðbréfa- og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna.

Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar í New York, hefur ekki verið skráð í Kauphöll frá árinu 2013, þegar það var keypt á 512 milljónir dala af vogunarsjóðnum Paulson & Co. Á sínum tíma var fyrirtækið með auðkennið LVB, sem var virðingarvottur til Ludwig van Beethoven. Nú mun auðkenni félagsins á markaði vera STWY.

Tekjur Steinway námu 538 milljónum dala árið 2021 sem var tæplega þriðjungsaukning frá árinu áður. Hreinn hagnaður félagsins jókst um 14% á milli ára og var 59 milljónir dala árið 2021.

Verðbil Steinwey flygils er 60-340 þúsund dalir, en fyrirtækið selur einnig ýmis tréblásturshljóðfæri. Dýrasti flygill Steinway er sjálfspilandi píanóið „The Spirio“.

Steinway var stofnað árið 1853 af Henry Engelhard Steinway, þýskum innflytjenda sem hannaði fyrsta Steinway píanóið í íbúð sinni í Manhattan. Árið 1873 opnaði verksmiðja í Astoria, hverfi í Queensborough, New York. Önnur verksmiðja opnaði sjö árum síðar í Hamborg, Þýskalandi.

Enn þann dag í dag eru Steinway píanó framleidd í New York og Hamborg. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Astoria, og gata í hverfinu er nefnd í höfuðið á fyrirtækinu, Steinway Street.