Þeim baðstöðum sem hafa vínveitingarleyfi verður gert skylt að afhenda áfengi í margnota umbúðum eða margnota glösum. Þá verður að auki sett hámark á hve mikið vín má afhenda viðskiptavinum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í drögum að breytingu á reglugerð um baðstaði í náttúrunni en drögin voru kynnt til samráðs í dag. Nokkrir baðstaðir á Íslandi, þeirra þekktastur Bláa lónið, hafa um árabil veitt slíka þjónustu.

„Ég tel þessa fyrirhuguðu breytingu skynsamlega,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.

Hingað til hefur áfengi verið afhent í plastglösum í Bláa lóninu en unnið hafi verið að því undanfarið að finna umhverfisvænni lausn. Fyrirhuguð breyting sé því í samræmi við það sem fyrirtækið hafi stefnt að.

„Við getum ekki verið með gler í þessu umhverfi vegna slysahættu þannig við höfum unnið að því að útvega margnota, hentug glös sem mæta þessum kröfum í samræmi við þá stefnu sem við settum okkur fyrir nokkru,“ segir Grímur.

Hvað fyrirhugað hámark á vínveitingar varðar segir forstjórinn að það muni heldur ekki koma til með að hafa áhrif enda hafi slík regla lengi verið við lýði suður með sjó.

„Tæknilega hefur það verið mjög einfalt fyrir okkur með örflöguböndin. Þá er einfaldlega ekki hægt að taka fleiri drykki út á bandið en leyft er,“ segir Grímur.

Hægt er að senda inn umsagnir um fyrirhugaða breytingu með því að smella hér . Umsagnarfrestur er til 24. júní.