Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að hann hafi átt samskipti við formenn annarra flokka til þess að greina stöðuna sem komin er upp. Hann ræddi meðal annars við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, en hann vildi ekki segja til um hvað þeir ræddu að svo stöddu. Í nótt sleit Björt framtíð stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn.

„Við sem erum kjörin af almenningi á landinu berum ábyrgð á því að mynda stjórnhæfar einingar. Þetta voru erfiðar stjórnarmyndunarviðræður í haust og vetur, sem enduðu í janúar. Margar útgáfur sem voru prufaðar, þessi entist svo í átta mánuði. Það er ekki augljóst hvar við erum stödd núna, það verður erfitt að taka upp þráðinn,“ segir formaður Framsóknarflokksins.

Hittast og fara yfir stöðuna

Líkt og Viðskiptablaðið hefur áður sagt frá þá hefur forseti Alþingis staðfest að þingfundur sem átti að hefjast klukkan 10:30, verði felldur niður. Á fundinum átti að ræða fjárlagafrumvarpið og ráðherrar sitja fyrir svörum um sína málaflokka. Þegar Sigurður Ingi er spurður út í það hvort að Framsókn hyggist styðja einhvers konar bráðabirgðafjárlög segir hann að flokkurinn sé ekki kominn svo langt. „Við ætlum að hittast á eftir, þingflokkurinn. Ég tel það eðlilegt að hittast og fara yfir stöðuna áður en við förum að tjá okkur út á við.“

Að lokum segir fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins að tíð stjórnarskipti væru afleit fyrir stöðugleika í landinu. „Pólitískur órói er aldrei góður fyrir samfélög,“ segir hann að lokum.