Eftirlitsnefnd með framkvæmd sáttar Samkeppniseftirlitsins (SKE) og Íslandspósts ohf. (ÍSP) hefur komist að þeirri niðurstöðu að ÍSP hafi brotið gegn ákvæðum sáttarinnar með því að bera ekki samruna ePósts, dótturfélags síns, við móðurfélagið. Þetta er í annað sinn sem nefndin telur mál tengt ePósti brjóta gegn sáttinni.

ePóstur var dótturfélag ÍSP sem ætlað var að auka stafræna þjónustu Póstsins. Félagið fékk um 300 milljón króna vaxtalaust lán frá móðurfélaginu til verksins. Á sama tíma og það hóf þróun sína á stafrænum lausnum gerðu Seðlabankinn og forsætisráðuneytið slíkt hið sama. Varð það enda raunin að ríkisfyrirtækið ePóstur varð undir í samkeppni við ríkisfyrirtækið Greiðsluveituna og vefinn Mitt Ísland. Lánið frá ÍSP tapaðist að nær öllu leyti.

Samkvæmt áðurnefndri sátt bar að reka ePóst í dótturfélagi aðskildu rekstri ÍSP. Þá bar einnig að reikna vexti á lánið en það hefur ÍSP neitað að gera. Sáttin fól í sér að heimilt væri að selja eða leggja niður dótturfélög að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eitt þeirra var að SKE myndi samþykkja það fyrirfram.

Nefndin taldi að ÍSP hefði verið heimilt að leggja ePóst niður þar sem viðvarandi taprekstur hafði verið á félaginu. Hins vegar hafi verið brotið gegn sáttinni með því að tilkynna SKE ekki um fyrirhugaðan samruna.

Það var Félag atvinnurekenda (FA) sem kvartaði til nefndarinnar vegna ePósts í báðum tilfellum. Félagið telur afgreiðslu nefndarinnar nú ekki í samræmi við sáttina þar sem ekki hafi verið heimilt samkvæmt henni að sameina félögin. Aðeins hafi verið heimilt að selja ePóst eða leggja starfsemina niður.

„Með sameiningu ePósts og ÍSP færist hið gríðarmikla tap sem hlotist hefur af rekstri ePósts yfir til ÍSP og þar með yfir á alþjónustuna. Kostnaðurinn vegna ePósts verður þannig annars vegar grundvöllur gjaldskrár og hins vegar hugsanlegra greiðslna vegna alþjónustubyrði. Hefur slíkt í för með sér að tap dótturfélags ÍSP í samkeppnisrekstri er fært yfir til skattborgaranna og þeir látnir borga brúsann,“ segir í tilkynningu frá FA.

Niðurstaða nefndarinnar í málinu lá fyrir í apríl en var ekki formlega afgreidd fyrr en í þessum mánuði. Ástæðan fyrir drættinum er sú að SKE hefur haft málefni ePósts til skoðunar frá því í byrjun árs eftir að ljóst var að félagið hafði verið afskráð og að vextir yrðu ekki reiknaðir á lánið.

„Nú hefur legið fyrir mánuðum saman að ÍSP braut gegn sáttinni. Þrátt fyrir það hefur SKE ekki gripið til neinna aðgerða vegna brotanna,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í samtali við Viðskiptablaðið.