Primera Air hefur tilkynnt að fyrirtækið hefji á nýju ári flug til Toronto í Kanada, en um er að ræða  nýjan áfangastað í Norður-Ameríku frá nýjum starfstöðvum fyrirtækisins í London Stansted, Birmingham og París.

Flogið verður þrisvar í viku milli Toronto (YYZ) og Birmingham og London og fjórum sinnum í viku til og frá Toronto til Parísar að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Nýjar Airbus vélar opna ný tækifæri

Andri M. Ingólfsson, forstjóri og stjórnarformaður Primera Air segir félagið vera stolt af því að kynna nýtt beint flug frá starfsstöðvum félagsins í Evrópu til Kanada. „Toronto verður frábær viðbót við flugin okkar til New York (EWR) og Boston frá London, Birmingham og París, sem áður voru tilkynnt,“ segir Andri.

„Með nýju Airbus A321NEO-flugvélunum opnum við á flugleiðir sem aðeins breiðþotur hafa flogið til þessa. Afköst og hagkvæmni nýju flugvélanna okkar er einstök og gera okkur kleift að bjóða farþegum okkar ódýrari flug en áður hafa sést frá Frakklandi og Bretlandi til Bandaríkjanna og Kanada.

Og við erum afar stolt af því að geta nú boðið bæði lág fargjöld og hágæða þjónustu í einum pakka sem hentar frábærlega bæði orlofsfarþegum og farþegum í viðskiptaerindum.” Nýjar flugvélar Primera Air eru með tvö farrými - Premium-farrými með fullri þjónustu og Economy-farrými á lægra verði - ásamt Wi-Fi og hleðslutenglum fyrir alla farþega um borð.

Fljúga þrisvar í viku til Kanada

Flug frá nýju starfsstöðvum Primera til Kanada hefjast í maí 2018 og verður flogið allt árið um kring. Primera Air mun bjóða þrjú flug vikulega, á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum, frá London Stansted og Birmingham, og fjögur flug vikulega, á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum, frá París (CDG).

Fyrr í sumar tilkynnti flugfélagið að það hyggðist fljúga daglega til New York og til Boston fjórum sinnum í viku frá öllum þremur flugvöllum.

Hafa pantað 20 nýjar Boeing vélar

Á næstu 2 árum mun Primera Air auka framboð sitt frá megináfangastöðum  sínum, opna nýjar flugleiðir á milli landa og nýjar starfstöðvar þar sem flugfélagið hefur lagt inn pöntun fyrir 20 nýjum Boeing Max9-ER-vélum, til viðbótar við þær 8 Airbus vélar sem félagið fær afhentar á næsta ári.

Primera Air starfrækir áætlunarflug og flýgur til yfir 70 áfangastaða í Evrópu, Kanaríeyjum og Austurlöndum nær. Primera Air er með höfuðstöðvar í Danmörku og Lettlandi og er hluti af Primera Travel Group, sem samanstendur af ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Íslandi og Eistlandi.