Páll Kr. Pálsson segir meðal annars að ekki sé gert nægilega mikið til að styðja við nýsköpun í starfandi fyrirtækjum og að á Íslandi væri svikalogn.

Páll segir mikil tækifærin liggja í framleiðslu bæði á VARMA vörum og sérvörum í framtíðinni, ef vel tekst til í þróunarverkefni fyrirtækisins um mýkra íslenskt ullarband.

„Við erum t.d. núna að framleiða sérvörur fyrir Ellingsen, Farmers Market, Cintamani, Epal og fleiri. Svo erum við t.d. að framleiða um 500 teppi sem Bergþóra í Farmers Market hefur hannað fyrir Sigur Rós. Svo er Skálmöld að fara á tónleikaferðalag til Þýskalands og við erum að prjóna fyrir þá peysur. Þeir báðu okkur að búa til íslenska peysu með „Skálmöld“ framan á og drekanum aftan á. Við gerðum frumgerð á nokkrum dögum og fengum svo góða pöntun. Það eru bara lítil fyrirtæki, vel tækni- og þekkingarvædd, sem geta brugðist svona hratt við og hafa mikinn sveigjanleika í verðmætasköpuninni. Þannig fyrirtæki ætlum við að vera í framtíðinni og nýta sem mest íslenska hönnun og ull.“

Margfalt hærri laun en í Kína

Elsta prjónavélin hjá VARMA er svo gömul að hún notar gataspjöld. „Hún kom á markaðinn upp úr 1950. Þetta er fyrsta kynslóð tölvustýrðra prjónavéla. Hún er mjög frumstæð,“ segir Páll. „Í næstu kynslóð er búið að byggja tölvustýringu á vélina. Fyrir um fimmtán árum komu svo prjónavélar sem geta gert miklu flóknara munstur þar sem forritið er sent beint úr tölvunni í vélina.

„Nýjustu prjónavélarnar okkar kosta 10 til 15 milljónir hver en það skilar sér til lengri tíma. Úr þeim fáum við vörur sem eru nánast algjörlega tilbúnar. Frágangurinn á pari af vettlingum tekur innan við tvær mínútur. Í eldri vélum tók hann yfir sex mínútur. Mínútan í saumasal hjá okkur kostar um 80 krónur. Í Kína kostar hún 10 til 15 krónur. Það að stytta framleiðslutímann gerir okkur samkeppnishæf við erlenda framleiðslu. Við þetta fækkar vissulega störfum, einkum á saumastofunni, en í staðinn skapast störf fyrir sérmenntað tæknifólk.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .