Sálfræðiprófessorinn Jordan Peterson gefur lítið fyrir þær samfélagstilraunir sem Íslendingar hafa verið í fararbroddi með, út frá sjónarhóli félagsvísindanna. Þar með talið skyldu karlmanna til að taka hluta af fæðingarorlofinu eða fyrirtækja til að fá vottun um að jafnstaða sé í launum milli kynjanna innan fyrirtækisins og hvað þá um kynjakvóta.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá varar hann fyrirtæki við að láta undan í mannauðsstefnu sinni öfgafullum kröfum hugmyndafræðilegra hópa sem náð hafa miklum völdum í háskólasamfélaginu. Í byrjun vikunnar hélt hann tvo troðfulla fyrirlestra í Hörpunni þar sem samanlagt um hálft prósent þjóðarinnar mætti.

„Ég ræddi um þetta við dómsmálaráðherrann ykkar og eitt af því sem hún sagði var að tilgangur laganna um feðraorlof væri ekki að auka fæðingartíðnina eða bæta umönnun hvítvoðunga eða gefa foreldrum meira frelsi. Heldur að gera ráðningar karlmanna jafnáhættusamar og það er að ráða konu. Það er reyndar gott dæmi um að meta rétt hvert vandamálið er,“ segir Peterson en spyr hvers vegna það ætti að vera góð aðgerð í sjálfu sér.

„Annað mál, er hve margar mismunandi ástæður geta verið fyrir launabili kynjanna. Nákvæmur rannsakandi byrjar ekki út frá þeirri hugmynd að hann viti hvers vegna eitthvað er til staðar. Þannig hugsa hins vegar þeir sem eru fastir í hugmyndafræðilegum kreddum.“

Bók hans ein sú söluhæsta í heimi

Bók hans 12 lífsreglur: Mótefni gegn glundroða kom út um mánaðamótin á vegum Almenna bókafélagsins, en hún er meðal þeirra bóka sem mest hafa selst í Bandaríkjunum og Bretlandi það sem af er árinu. Auk þess að vera með eigin sálfræðiþjónustu hefur Peterson kennt við Háskólann við Toronto, en einnig við Harvard og víðar.

Eru margir sem þakkað hafa skilaboðum hans því að losna upp úr neikvæðum hugsunum og þunglyndi og ánetjast ekki öfgaöflum sem þrífast víða í afkimum samfélagsmiðla. Hann hefur þó fengið yfir sig holskeflu gagnrýni sem hann vill meina að sé fyrst og fremst runnin undan rifjum slíkra öfgaafla.

Segir hann þau boða auðveldar lausnir við vandamálum mannlegs samfélags með því að kenna einstaklingshyggju vestræns samfélags, svokölluðu feðraveldi, eða hinum og þessum hópum einhverra annarra, ásamt meintri kerfisbundinni mismunun, um það sem aflaga hefur farið í lífi einstaklinganna.

Álag vegna fæðinga leggst augljóslega mismikið á kynin

„Eitt af því sem hefur hitt mig illa fyrir þegar ég hef rætt við fjölmiðla, er að ég tala venjulega sem vísindamaður. Þá nefni ég venjulega hve flókin vandamálin eru en fólk vill heyra að vandamálð sé auðvelt og það sama gildi um lausnina,“ segir Peterson um þá miklu umræðu sem hefur orðið þegar hann hefur tjáð sig um niðurstöður úr sálfræðivísindunum um ýmis þjóðfélagsleg álitamál.

„Þá verður fólk reitt og gerir ráð fyrir að ég standi í andstöðu við grundvallarhugmyndir þess. Til að mynda ef ég gagnrýni löggjöf um jafnstöðu í launum, sem er venjulega vinstrisinnuð aðferðafræði, þá eru viðbrögðin ekki sú að hlusta á sértæka gagnrýni mína heldur gera ráð fyrir að ég sé einhver hatrammur hægrimaður.

Það er ekki málið heldur er ég að hugsa hlutina út í gegn því ég gæti alveg séð fyrir mér að það sé hægt að gera eitthvað til að leysa það vandamál, sem augljóslega er til staðar, að álagið vegna fæðinga leggst mismikið á kynin. Ég veit hins vegar ekki hvernig á að gera það, enginn gerir það enn.“