Sony seldi 10 milljónir eintaka af leikjatölvunni Playstation 5 (PS5) á mettíma. Japanska tæknifyrirtækið náði áfanganum á aðeins 249 dögum frá útgáfudegi en til samanburðar tók þetta 271 dag fyrir Playstation 4 en alls seldust 115 milljónir PS4 leikjatölvur.

Microsoft á enn eftir að tilkynna ítarlegar sölutölur um Xbox Series X tölvuna sem var gefin út í nóvember síðastliðnum. Satya Nadella, forstjóri Microsoft, sagði þó á uppgjörsfundi á þriðjudaginn að nýja kynslóðin af Xbox leikjatölvum hafi selst hraðast af öllum leikjatölvum í sögu fyrirtækisins. Greiningafyrirtækið Niko Partners áætlar að Microsoft hafi selt um 6,5 milljónir eintaka af Xbox series X í lok síðasta mánaðar, samkvæmt frétt Polygon .

Fægt er að Don Mattrick, þáverandi forstjóri leikjatölvudeildar Microsoft, sagði árið 2008 að fyrsta leikjatölvan til að selja 10 milljónir eintaka myndi vinna keppninni sem ríkti á milli Xbox 360 og Playstation 3. Hann lét þó ummælin falla eftir að Xbox 360 náði áfanganum.

Þessi mælikvarði er þó alls ekki fullkominn mælikvarði en það tók meira en eitt ár fyrir Sony að afhenda 10 milljónir Playstation 2 tölvur en hún endaði á að verða mest selda leikjatölva allra tíma.

Áfram erfiðleikar í framleiðslu

Sony hefur átt í miklum vandræðum vegna skorts á aðföngum í framleiðslu, þá helst örgjörvum. Fyrir vikið hefur verið mikill biðtími eftir leikjatölvunni og er hún til að mynda uppseld hjá Elko.

„Þrátt fyrir að PS5 hafi náð til fleiri heimila heldur en fyrri leikjatölvur, þá er enn mikil vinna framundan hjá okkur þar sem eftirspurn eftir PS5 er áfram meira en framboð,“ er haft eftir Jim Ryan, forstjóra Sony Interactive Entertainment, í frétt Skynews . Hann segir að lykilmarkmið fyrirtækisins um þessar mundir sé að bæta birgðastöðu.