99 ára gömul hershöfðingjadóttir hefur nú hlotið rússneskan ríkisborgararétt sinn á ný, aðeins örfáum dögum fyrir 100 ára afmæli sitt.

Þegar Irene de Dreier var fimm ára flúði hún Rússland, eftir að hafa verið gerð útlæg af byltingarsinnunum sem kölluðu sig Bolsévika.

Hershöfðingi hvíta hersins

Faðir hennar, Vladimir von Drier, var hershöfðingi keisaraveldisins, og barðist með gagnuppreisnarhernum hvíta mót Bolsévikum í kjölfar októberbyltingarinnar 1917.

Fjölskylda Irene flúði til Krímskaga þar sem síðasta vígi anduppreisnarmanna féll að lokum. Því næst fluttust þau til Frakklands, og hershöfðinginn stofnaði vínverslun.

Eftir að hafa ferðast víða um heim og átt þrjá maka hvaðanæva að úr heiminum átti hún þó alltaf eina ósk eftir óuppfyllta - að snúa aftur til heimahaganna.

Vildi heimsækja móðurlandið

Eftir að hafa biðlað til Pútíns um að hljóta ríkisborgara- og inngöngurétt sinn til móðurlandsins á ný var henni svo veittur ríkisborgararéttur af Vladimir Putín, forseta Rússlands.

„Ég vil kynnast skapara mínum, ekki sem útlendingur, heldur sem raunverulegur rússneskur borgari, sem Rússi í hjarta mínu og sál,“ sagði Irena í beiðni sinni.

Hún vonast til að geta heimsótt Rússland ef heilsa hennar leyfir áður en verður um seinan og hún hverfur yfir móðuna miklu.